Árið 2023

Samtakamáttur og skýr sýn er lykilatriði að árangri

Með nýrri forystu fylgja breytingar og nýjar áherslur. Sterk liðsheild, skýr markmiðasetning og ábyrgur rekstur eru þættir sem skipta sköpum í árangursríkum rekstri. Ég horfi bjartsýnum augum fram á við þar sem félagið hefur að geyma öflugan mannauð sem býr yfir mikilli sérfræðiþekkingu, sköpunargáfu og drifkrafti.

Samtakamáttur og skýr sýn er lykilatriði að árangri. Það er mikið keppikefli að byggja upp fyrirtækjamenningu þar sem stjórnendur og starfsfólk ganga í takt með áherslu á ábyrgan rekstur, sjálfbærni, framúrskarandi þjónustu og vellíðan starfsfólks.

Sýn er samfélagslega mikilvægt fyrirtæki sem starfar á markaði þar sem örar breytingar eiga sér stað. Skuldbinding okkar við ábyrgð er í forgrunni í nýrri stefnu félagsins. Félagið hefur unnið að stefnumörkun á sviði sjálfbærni til að varða veginn framundan. Á síðastliðnum tveimur árum hefur átt sér stað innleiðing á sjálfbærnistaðli sem mun styrkja við innviði félagsins í þá átt. Félagið hefur átt mikilvæg samtöl við lykil hagaðila þar sem greinargóð kortlagning á mikilvægisþáttum starfseminnar og virðiskeðju þess hefur verið gerð.

Það eru ýmsar áskoranir í rekstrarumhverfi fyrirtækja á Íslandi, verðbólga og hátt vaxtastig er íþyngjandi og til viðbótar er aukin áhætta í tengslum við náttúruvá. Áhættumat félagsins er í stöðugri endurskoðun og uppfærslu, auk almennrar áhættu er einnig horft til sjálfbærniáhrifa.

Sýn framleiðir hágæða efni og býður upp á framúrskarandi þjónustu til viðskiptavina sinna. Það er brýnt að stjórnvöld skapi heilbrigðan ramma um markaðinn. Einkarekin fyrirtæki eiga ekki að þurfa að keppa við Ríkisútvarpið um starfsfólk, afþreyingarefni og takmarkaðar auglýsingatekjur. Ríkisrekinn fjölmiðill með skylduáskrift þegna landsins er tímaskekkja. Stjórnvöld þurfa að standa við yfirlýsingar sínar um að jafna samkeppnisstöðu innlendra fjölmiðla og erlendra streymisveitna. Ein leið er fær en það er að leggja skatt eða fjárfestingakvöð á erlendar streymisveitur í samræmi við heimildir í tilskipunum EES líkt og tíðkast víða í Evrópu, þar með talið á Norðurlöndum.

Á síðustu tveimur áratugum hefur Sýn byggt upp öfluga fjarskiptainnviði sem ná til meginþorra landsmanna. Kerfi Sýnar eru vöktuð allan sólarhringinn til að tryggja öryggi og áreiðanleika þjónustu okkar. Við erum stöðugt að kanna ný tækifæri til að nýta tæknina til hagsbóta fyrir viðskiptavini okkar og samfélagið í heild.

Mikilvægur þáttur í stjórnarháttum félagsins felst í miðlun upplýsinga, bæði fjárhags- og sjálfbærniupplýsingum. Í ár gefur Sýn út annað árið í röð sameiginlega árs- og sjálfbærniskýrslu og eru efnistökin byggð á alþjóðlegum staðli GRI. Innleiðingunni er ætlað að styrkja enn frekar innviði til að efla sjálfbærni í starfseminni og tryggja að félagið sé að uppfylla breytingar á lögum sem eru framundan.

Við notum vefkökur til að bæta upplifun þína á síðunni. Með því að halda áfram að vafra um síðuna samþykkir þú skilmála okkar um notkun á vefkökum, að öðrum kosti getur þú kynnt þér hvernig má stýra notkun þeirra.