Árið 2023

Stjórnarhættir

Meginmarkmið stjórnar og stjórnenda Sýnar hf. er að tileinka sér góða stjórnarhætti þar sem leiðarljósið er að styrkja innviði félagsins, efla tryggð og gegnsæi. Stjórnarhættir félagsins eru uppfærðir reglulega til að innleiða breytingar á lögum og til að takast á við breytingar og þróun hér á landi sem og erlendis. Megináherslan er að byggja upp góða og ábyrga fyrirtækjamenningu til hagsbóta fyrir alla hagaðila félagsins. Góðir stjórnarhættir eru forsenda fyrir traustum samskiptum stjórnar, stjórnenda, starfsfólks, hluthafa, viðskiptavina, eftirlitsaðila og annarra lykil haghafa Sýnar.

Stjórnarháttayfirlýsing Sýnar hf. byggir á lögum og reglum og leiðbeiningum um stjórnarhætti fyrirtækja sem gefnar eru út af Viðskiptaráði Íslands í samstarfi við Samtök atvinnulífsins og Nasdaq Iceland. Stjórnarháttayfirlýsing er birt samhliða árs- og sjálfbærniskýrslu félagsins.

Félagið hefur innleitt stefnur og verklag til að stuðla að góðum stjórnarháttum. Siðferðissjónarmið eru kjarninn í starfsemi félagsins og eru höfð í huga við allar ákvarðanir. Félagið hefur sett sér siðareglur og aðgerðir sem sporna eiga við spillingar- og mútumálum.

Sýn hf. er vottað fyrirmyndarfyrirtæki í góðum stjórnarháttum. Þá hefur fyrirtækið fengið Hvatningarverðlaun jafnréttismála, en félagið fékk árið 2023 staðfestingu á áframhaldandi vottun samkvæmt jafnlaunastaðlinum ÍST 85:2012 og á alþjóðlega staðlinum ISO27001:2013 á stjórnkerfi upplýsingaöryggismála.

Stjórn Sýnar hf.

Stjórn Sýnar hf. er kosin á aðalfundi félagsins til eins árs í senn, kjörnir eru fimm aðalmenn og tveir varamenn. Stjórn félagsins ásamt forstjóra fer með æðsta vald í málefnum félagsins milli hluthafafunda og ber meginábyrgð á rekstri þess. Á aðalfundi 17. mars 2023 var kosið í aðal- og varastjórn félagsins.

Við árslok 2023 var stjórn Sýnar hf. skipuð eftirfarandi aðilum: Jóni Skaftasyni, stjórnarformanni, Rannveigu Eir Einarsdóttur, varaformanni, Hákoni Stefánssyni, Páli Gíslasyni og Salóme Guðmundsdóttur. Varamenn stjórnar eru þau Daði Kristjánsson og Ingibjörg Ásdís Ragnarsdóttir.

Meginhlutverk stjórnar

Meginhlutverk stjórnar Sýnar hf. er að marka félaginu stefnu og hafa eftirlit með framkvæmd hennar. Kjarni stefnunnar er að hagsmunir viðskiptavina, eigenda og starfsmanna séu hafðir að leiðarljósi. Áhersla er lögð á traustan og arðbæran rekstur og að rekstraráhætta sé lágmörkuð. Stjórn gætir þess einnig að starfsemi félagsins sé í samræmi við tilgang þess samkvæmt samþykktum og markaðri stefnu.

Stjórnarformaður

Jón Skaftason

Jón Skaftason, stjórnarformaður félagsins, er fæddur árið 1983. Hann er lögfræðingur frá Háskóla Íslands og sérhæfði sig í skyldum stjórnarmanna í hlutafélögum, sem hann skrifaði lokaritgerð um. Enn fremur er Jón LL.M í Corporate Law frá University College London. Hann hefur réttindi til málflutnings fyrir Héraðsdómi og hefur sinnt stundakennslu í félagarétti við Háskólann í Reykjavík og kennt þar um skyldur stjórnarmanna. Milli áranna 2020 og 2022 var Jón framkvæmdastjóri Strengs Holding ehf. Þar stýrði hann fjárfestingum Strengs í Skeljungi hf. og Kaldalóni hf. Á árunum 2012 til 2020 var Jón framkvæmdastjóri fjárfestinga 365 hf., lengst af með aðsetur í London og vann hann m.a. að sölu á fjölmiðla- og fjarskiptarekstri 365 miðla til Sýnar hf. (þá Fjarskipti). Jón starfaði sem lögmaður á skrifstofu Logos Legal Services í London á árunum 2007 til 2012. Jón er fyrrverandi stjórnarformaður Norr 11 Apps og 101 Copenhagen Apps (Danmörk), Kaldalóns (2021-2022), Sleep Solutions Ltd (Bretland) árin 2018-2021 og Murduck London Ltd (Bretland) árin 2012-2014. Jón var meðstjórnandi hjá Torgi ehf. – útgáfufélagi Fréttablaðsins árin 2018-2019. Jón er stjórnarmaður í Gavia Invest ehf., eins stærsta hluthafa Sýnar hf., og Pordoi ehf., sem heldur utan um eignarhlut hans í Gavia. Félag tengt Jóni, Gavia Invest ehf., fer með samtals 42.147.128 hluti í Sýn hf.

Varaformaður stjórnar

Rannveig Eir Einarsdóttir

Rannveig Eir Einarsdóttir, er varaformaður stjórnar, fædd árið 1965. Hún er með MBA gráðu frá Háskóla Íslands. Rannveig er forstjóri Reir Verk ehf., þróunar- og byggingarfélags. Frá árinu 2016 hefur Rannveig starfað á sviði fasteignaþróunar og byggingarstarfsemi, sem forstjóri og meðeigandi að Reir Verk ehf. Hún tók þátt í byggingu og stofnun Sandhótels við Laugaveg sem nú er rekið af KEA hotels. Rannveig var stjórnarmaður í félaginu Heimavöllum hf. árin 2019 og 2020. Áður starfaði hún sem stjórnandi hjá Icelandair frá árinu 2000 til ársins 2016 á sviði mannauðsmála og sem forstöðumaður flugþjónustudeildar Icelandair. Undanfarin fimm ár, eða frá árinu 2017, hefur Rannveig verið í stjórn Ölgerðarinnar og er enn stjórnarmaður í því félagi. Rannveig fer með 20.650.000 hluti í Sýn hf. gegnum Fasta ehf.

Stjórnarmaður

Hákon Stefánsson

Hákon Stefánsson er fæddur árið 1972. Hann lauk embættisprófi í lögfræði frá Háskóla Íslands 1998 og er með réttindi til málflutnings fyrir Landsrétti. Hann hefur frá árinu 2019 starfað sem forstjóri InfoCapital ehf. Áður var hann meðeigandi Lögmanna Mörkinni 2018-2019. Þá gegndi hann ýmsum störfum á árunum 2006-2018 fyrir Creditinfo Group, svo sem starfi framkvæmdastjóra á Íslandi, framkvæmdastjóra lögfræðisviðs og alþjóðamarkaða, sem og starfi aðstoðarforstjóra. Hann átti sæti í framkvæmdastjórn Intrum Justitia á árunum 2002-2006, var bæjarlögmaður á Akureyri 2000-2002 og starfaði sem löglærður fulltrúi á Lögfræðistofu Reykjavíkur 1998-2000. Hákon situr og hefur setið í stjórnum fjölmargra innlendra og erlenda fyrirtækja auk þess að sitja í stjórnum opinberra stofnana og fyrirtækja. Félög tengd Hákoni, þ.e. Íslex ehf., InfoCapital ehf. og Gavia Invest ehf., fara með 55.847.128 hluti í Sýn hf.

Stjórnarmaður

Páll Gíslason

Páll Gíslason er fæddur árið 1976. Hann er rafmagns- og tölvuverkfræðingur sem hefur á rúmlega tuttugu ára ferli starfað við nýsköpun á ýmsum sviðum tækni og vísinda. Páll hefur undanfarin 15 ár starfað að mestu á alþjóðlegum fjármálamörkuðum, lengst af sem meðstofnandi og forstjóri World Financial Desk (WFD) í Bandaríkjunum. WFD var um tíma með stærri viðskiptavökum á rafrænum mörkuðum með bandarísk ríkisskuldabréf og vaxtaafleiður víða um heim. Páll starfaði sem sjóðsstjóri hjá Crabel Capital Management í Los Angeles, í kjölfar sölu WFD til Crabel, og síðar sem forstöðumaður markaðsviðskipta hjá Jiko sem er bandarískur fjártæknibanki. Páll á ekki eignarhlut í félaginu.

Stjórnarmaður

Salóme Guðmundsdóttir

Salóme Guðmundsdóttir er fædd árið 1983. Hún er með B.Sc. próf í viðskiptafræði frá Háskólanum í Reykjavík og lauk AMP stjórnendanámi við IESE í Barcelona árið 2019. Undanfarinn áratug hefur hún starfað þvert á atvinnulífið í hringiðu nýsköpunar og tækni. Hún starfar sem framkvæmdastjóri rekstrar hjá Justikal, en var áður forstöðumaður í viðskiptaþróun hjá sprotafyrirtækinu PayAnalytics og stjórnarmaður og ráðgjafi hjá Eyri Venture Management. Salóme starfaði sem framkvæmdastjóri Klak - Icelandic Startups árin 2014 til 2021. Þar áður var hún forstöðumaður Opna háskólans í HR. Salóme hefur víðtæka reynslu af nefndar- og stjórnarstörfum í íslensku atvinnulífi, hún er leiðbeinandi við Executive MBA nám háskólans í Reykjavík og situr í stjórn Viðskiptaráðs Íslands. Salóme á ekki eignarhlut í félaginu.

Forstjóri Sýnar hf.

Forstjóraskipti urðu á árinu en Yngvi Halldórsson sagði starfi sínu lausu þann 16. október 2023. Við starfinu tók tímabundið Páll Ásgrímsson, framkvæmdastjóri Lögfræðisviðs. Páll gegndi starfi forstjóra þar til um miðjan janúar 2024 þegar Herdís Dröfn Fjeldsted tók til starfa.

Forstjóri

Herdís Dröfn Fjeldsted

Herdís Dröfn Fjeldsted er fædd árið 1971. Hún hefur víðtæka reynslu sem stjórnandi en hún var áður forstjóri Valitor þar sem hún leiddi félagið í gegnum endurskipulagningu og síðar sölu. Þar áður var hún framkvæmdastjóri Framtakssjóðs Íslands. Herdís hefur setið í fjölmörgum stjórnum bæði á Íslandi sem og erlendis. Hún var m.a. stjórnarformaður Icelandic Group og VÍS, varaformaður stjórnar Promens, stjórnarmaður í Icelandair Group, Invent Farma, Medicopack A/S og Copeinca AS. Herdís er formaður stjórnar Eyris Venture Management.

Herdís útskrifaðist með B.Sc. gráðu í viðskiptafræði með áherslu á alþjóðamarkaðssetningu úr Tækniháskóla Íslands árið 2004 og með meistaragráðu í fjármálum fyrirtækja frá Háskólanum í Reykjavík árið 2011. Herdís er auk þess með próf í verðbréfaviðskiptum.

Framkvæmdastjórn Sýnar hf. 2023

Forstjóri og framkvæmdastjórar mynda framkvæmdastjórn félagsins og ber hún ábyrgð á daglegum rekstri þess og fylgni við rekstraráætlanir. Við árslok 2023 voru framkvæmdastjórar þessir, auk forstjóra félagsins:

Framkvæmdastjóri nýsköpunar og rekstrar

Hulda Hallgrímsdóttir

Hulda gekk til liðs við félagið sem framkvæmdastjóri Nýsköpunar og rekstrar í árslok 2022. Hún hefur alþjóðlega reynslu af rekstri, stórum umbreytingarverkefnum, gæðamálum, kerfisinnleiðingum og fleiru frá Össuri þar sem hún starfaði á tímabilinu 2011-2022. Í starfi sínu sem forstöðumaður á rekstrarsviði Össurar var áhersla hennar m.a. á gæðamál, innleiðingu regluverks lækningatækja, öryggismál og sjálfbærni þvert yfir fyrirtækið á alþjóðavísu. Þar áður starfaði hún sem verkefnastjóri í alþjóðlegum umbreytingaverkefnum þar sem áhersla var á að umbylta ferlum og innleiða nýtt vinnulag og tækni. Áður en hún kom til Össurar starfaði hún á upplýsingatæknisviði og þróunarsviði Landsbankans við að innleiða nýja ferla og tæknilausnir sem starfsmaður verkefnastofu. Hulda er með B.Sc. og M.Sc. gráðu í iðnaðarverkfræði með áherslu á hermun og bestun frá Háskóla Íslands.

Framkvæmdastjóri fjármála og stefnumótunar

Kristín Friðgeirsdóttir

Kristín Friðgeirsdóttir tók við sem fjármálastjóri Sýnar hf. sumarið 2021. Kristín starfaði áður sem alþjóðlegur ráðgjafi í tekjustýringu, gagnagreiningu og stefnumarkandi ákvarðanatöku. Hún hefur jafnframt kennt MBA og stjórnendanámskeið í London Business School. Kristín hefur setið í stjórnum Kviku banka, Eikar, Controlant, Distica og Völku og var áður varaformaður stjórnar TM og stjórnarformaður Haga. Kristín er með mastersgráðu í fjármálaverkfræði og doktorsgráðu í rekstrarverkfræði frá Stanford háskóla.

Framkvæmdastjóri lögfræðisviðs

Páll Ásgrímsson

Páll Ásgrímsson er aðallögfræðingur félagsins en undir hann heyra einnig gæða- og öryggismál, aðfangastýring og regluvarsla. Páll kom til starfa hjá félaginu 2014 en áður var hann einn af eigendum lögfræðistofunnar Juris. Hann er reynslumikill lögmaður á sviði félagaréttar, auk þess að hafa sérhæft sig á sviði fjarskipta-, upplýsingatækni- og samkeppnisréttar. Um árabil starfaði Páll sem forstöðumaður og síðar framkvæmdastjóri lögfræðisviðs Símans (síðar Skipta) auk þess að búa að reynslu frá EFTA og ESA í Brussel og Samkeppnisstofnun. Páll hefur auk þess setið í stjórnum ýmissa fyrirtækja innan fjarskiptageirans, t.d. Símans hf., Mílu ehf., FARICE hf. og Skjásins ehf. Páll er lögfræðingur frá Háskóla Íslands og með LL.M frá London School of Economics.

Framkvæmdastjóri Vodafone

Sesselía Birgisdóttir

Sesselía tók við sem framkvæmdastjóri Vodafone í ársbyrjun 2023. Hún kom til Vodafone frá Högum þar sem hún starfaði sem forstöðumaður nýsköpunar og markaðsmála frá 2021-2023. Þar á undan starfaði Sesselía sem framkvæmdastjóri þjónustu-, sölu- og markaðssviðs hjá Íslandspósti. Á árunum 2016 til 2019 starfaði hún sem sem forstöðumaður stafrænna miðla og markaðsmála hjá Advania. Sesselía hefur lokið M.Sc. námi í stjórnun mannauðs, með áherslu á þekkingar og breytingarstjórnun frá Lundar háskóla í Svíþjóð og M.Sc. námi í alþjóðlegri markaðsfræði og vörumerkjastjórnun frá Lundar háskóla í Svíþjóð.

Skipurit

  • Skipurit 11. janúar 2024

Við notum vefkökur til að bæta upplifun þína á síðunni. Með því að halda áfram að vafra um síðuna samþykkir þú skilmála okkar um notkun á vefkökum, að öðrum kosti getur þú kynnt þér hvernig má stýra notkun þeirra.