Árið 2023

Samfélag

Sýn er efnahagslega og samfélagslega mikilvægt fyrirtæki sem veitir víðtæka þjónustu sem skiptir miklu máli fyrir innviði samfélagsins, samskipti fólks og rekstur fyrirtækja og stofnana.

Félagið fylgir í hvívetna lögum og reglum og leggur sig fram að vera fyrirmynd í samfélagsmálum. Það einsetur sér að sýna starfsfólki sínu, birgjum og viðskiptavinum virðingu í öllum samskiptum. Fréttastofan miðlar nokkrum sinnum á dag markverðum fréttum sem viðkemur almenningi og tengist meðal annars öryggi þeirra. Sýn framleiðir þætti sem hafa áhrif á umræðu og vitundarvakningu almennings er varðar ýmis málefni.

Sýn styrkir fjölbreytt góðgerðarsamtök, íþróttastarf og menningu með ýmsum hætti. Stuðningur Sýnar er ýmist í formi beins fjárhagsstuðnings, afslátta fyrir veitta þjónustu, sjálfboðastarfs, safnana eða gjafa. Ákvarðanir um stuðning, samstarf og úthlutun styrkja eru teknar út frá sjálfbærniáherslum fyrirtækisins.

Baklandið

Baklandið er þáttaröð sem segir persónulegar sögur sjúkraflutninga- og slökkviliðsmanna á Íslandi. Áhorfandi upplifir margvísleg útköll í gegnum þeirra augu og fær að kynnast þessum hugrökku einstaklingum sem standa samfélagi okkar vörð.

Mig langar að vita

Skemmtilegir þættir með Magnúsi Hlyni þar sem hann ferðast um landið í leit að svörum um hin ýmsu málefni og spurningum sem brenna á honum sjálfum og áhorfendur fá að fljóta með. Hann hittir hresst og áhugavert fólk um land allt og heimsækir merkilega staði.

Okkar eigið Ísland

Garpur Elísabetarson ferðast vítt og breitt um Ísland með góðu fólki og lendir í ýmsum ævintýrum. Útivist á áhugaverðum stöðum er hér í öndvegi og náttúra Íslands í allri sinni dýrð.

Gerum betur með Gurrý

Fræðslu- og skemmtiþættir þar sem fjallað er um heilsu frá ýmsum sjónarhornum. Í gegnum þáttaröðina er sjö einstaklingum fylgt eftir í tilraun sinni til að tileinka sér heilbrigðari lífstíl undir handleiðslu Gurrýjar.

Hliðarlínan

Íþrótta- og fréttaskýringaþáttur þar sem menningin í kringum íþróttir barna og ungmenna er skoðuð. Kastljósinu er beint að hegðun foreldra svo og meiðslum og andlegri heilsu barna í íþróttum.

Svo lengi sem við lifum

Leikin þáttaröð eftir Anítu Briem sem fjallar um áskoranir í hjónabandi ungra hjóna, sagt frá sjónarhorni konunnar. Við gerð þáttanna var stuðst við handbók um sjálfbæra kvikmyndaframleiðslu sem byggir á vottunarkerfi á vettvangi Creative Europe.

Tónlistarmennirnir okkar

Tónlistarmennirnir okkar er heimildar- og viðtalsþáttaröð þar sem sjónvarpsmaðurinn Auðunn Blöndal hittir nokkra af ástsælustu skemmtikröftum landsins, fylgir þeim eftir í leik og starfi og rifjar upp feril þeirra.

RAX - Augnablik

Heimildarþættir um ljósmyndir okkar þekktasta ljósmyndara, Ragnars Axelssonar. Fjallað er um augnablik í lífi RAX sem hefur ljósmyndað helstu viðburði í sögu þjóðarinnar og veitir þannig einstaka innsýn í sögulega atburði.

Sambúðin

Þættirnir Sambúðin voru framleiddir með það að markmiði að brúa kynslóðabilið. Í Sambúðinni er fylgst með 6 pörum sem samansett eru af einni manneskju sem komin er á eftirlaunaaldur og annarri ungri manneskju um tvítugt. Þátttakendurnir taka virkan þátt í lífi og áhugamálum hvors annars á nokkurra daga tímabili.

Krakkakviss

Krakkaútgáfa spurningaþáttanna vinsælu þar sem börn á aldrinum 10-12 ára etja kappi. Hundruð barna víðsvegar um landið sótti um þátttöku og því ljóst að þessi vinsæli þáttur hefur fest sig vel í sessi hjá yngri kynslóðinni.

Kryddsíldin

Í yfir þrjátíu ár hafa formenn stjórnmálaflokkanna á þingi mætt í beina útsendingu í Kryddsíld á Stöð 2 á gamlársdag. Farið er yfir árið sem er að líða, helstu viðburði og horft fram á veginn, bæði á léttum og alvarlegum nótum.

Kompás

Fréttaskýringaþátturinn Kompás kafar djúpt í ákveðið málefni í hverjum þætti. Árið 2023 voru eftirfarandi þættir sýndir: Vandi heimilislausra fíkla, veikir fangar í einangrun, villta vestrið í fegrunaraðgerðum og rafhlaupahjólaslys. Í öllum tilfellum varð umfjöllun Kompáss til þess að úrbætur áttu sér stað.

Annálar

Fréttastofan rifjaði upp árið 2023 með tólf annálum sem sýndir voru í desember. Í hverjum annál var tekinn fyrir ákveðinn málaflokkur, rifjaðar upp fréttir og settar í samhengi við núverandi stöðu.

Anna Eiríks

Hreyfum okkur saman eru stuttir og fjölbreyttir æfingaþættir þar sem Anna Eiríksdóttir leiðir áhorfandann í gegnum ýmsar æfingar þar sem markmiðið er að fá sem flesta til að huga að heilsunni og hreyfa sig smá á hverjum degi.

Halló heimur

Skoppa og Skrítla eru vel þekktir karakterar í ævintýraheim barna á Stöð 2. Í þessum krúttlegu þáttum kíkja Skoppa og Skrítla í myndabók sína og fylgjast með allra yngstu börnunum taka lítil skref í átt til framfara og þroska. Upplifanir finnast á hverju strái og í hverjum króki og kima.

Hvítatá

Fyrsta íslenska teiknimyndaþáttaröðin sem Stöð 2 framleiddi kom út 2022 og naut mikilla vinsælda. Árið 2023 gaf Stöð 2 því út aðra þáttaröð Hvítutár sem ætluð er börnum á aldrinum tveggja til fjögurra ára. Þættirnir um Hvítutá eru aðeins fyrsta skrefið í teiknimyndaframleiðslu Stöðvar 2.

Tónskáldasjóður Stöðvar 2 og Bylgjunnar

Tónskáldasjóður Bylgjunnar og Stöðvar 2 í samvinnu við STEF úthlutaði í ár alls 6 milljónum króna til íslensks tónlistarfólks. Markmiðið með sjóðnum er að styrkja tónskáld og textahöfunda til nýsköpunar. Eitt af meginmarkmiðum miðla Stöðvar 2 og Bylgjunnar er að efla þáttagerð í útvarpi og sjónvarpi þar sem íslensk tónlist er í öndvegi og með stuðningi við íslenskt tónlistarfólk. Með þessum hætti eflir félagið og auðgar íslenska menningu sem og fjölmiðlastarfsemi.

Starfsfólk hljóp til styrktar Landsbjargar

Starfsfólk félagsins tók sig saman og hljóp til styrktar Landsbjargar í Reykjavíkurmaraþoninu. Með því vildi starfsfólk vekja athygli á því góða starfi sem er unnið hvað mest í sjálfboðaliðastarfi hjá Slysavarnafélaginu Landsbjörg.

Tæknin til góðs

Á árinu vann Vodafone að fjölmörgum verkefnum sem styðja við samfélagið og hafa jákvæð áhrif á umhverfið.

Stofnuð var klukk keðja fyrir Ljósið þegar Vodafone klukkaði öll fjarskiptafélög á markaði og hvatti til að leggja Ljósinu lið. Fjarskiptakostnaður til stríðshrjáðra landa var felldur niður fyrir yfir 9 milljónir króna.

Vodafone tók þátt í söfnunarátaki fyrir Grensásdeild Landspítalans og söfnuðust yfir 147 milljónir króna. Vodafone sá söfnuninni fyrir öruggri fjarskiptaþjónustu við áheitasöfnunina sem fór fram í gegnum síma og sms. Traust fjarskiptasamband er lykilþáttur í svona söfnun þar sem álag á kerfi verður mikið á stuttum tíma. Starfsfólk Vodafone tryggði að tæknin virkaði sem skildi ásamt því að umbreyta þjónustuveri Vodafone þar sem sjálfboðaliðar svöruðu í símann og tóku á móti framlögum.

Stuðningur við Grindvíkinga

Vodafone tryggði örugg fjarskipti á gosstöðvum við Litla-Hrút í sumar fyrir viðbragðsaðila, vísindafólk og viðskiptavini. Um leið og vart varð við gosóróa var farið í að efla farsímaþjónustu enn frekar á svæðinu og settur var upp viðbótar fjarskiptabúnaður sem snýr að gossvæðinu á Kálfatjörn og á Þorbirni. Þegar kom til rýmingar á Grindavík var neyðarteymi Vodafone virkjað til að sjá til þess að fjarskiptasamband héldist stöðugt. Allur fjarskiptakostnaður Grindvíkinga og fyrirtækja í Grindavík var felldur niður ásamt því að þeim voru veittar ókeypis nettengingar í bráðabirgðahúsnæði.

Þegar íbúar Grindavíkur þurftu að yfirgefa heimili sín í skyndi í nóvember 2023 var öllum íbúum bæjarins gefin áskrift að Stöð 2 og Stöð 2+ til að tryggja aðgengi allra að fréttum Stöðvar 2. Haldin var styrktarútsending í Subway deildinni frá leik Grindavíkur og leikurinn sýndur í opinni dagskrá.

Við notum vefkökur til að bæta upplifun þína á síðunni. Með því að halda áfram að vafra um síðuna samþykkir þú skilmála okkar um notkun á vefkökum, að öðrum kosti getur þú kynnt þér hvernig má stýra notkun þeirra.