Árið 2023

Tvöföld mikilvægisgreining

Mikilvægur þáttur í sjálfbærniupplýsingagjöf Sýnar er að miðla upplýsingum um veigamikla þætti í starfseminni með tilliti til sjálfbærni á sviði stjórnarhátta, efnahags-, umhverfis- og félagsþátta. Á árinu 2022 var unnin mikilvægisgreining sem byggði á viðmiðum Global Reporting Initiative (GRI) staðalsins og árið 2023 var sú greining uppfærð í samræmi við í European Sustainability Reporting Standard (ESRS) staðal Evrópusambandsins um tvöfalda mikilvægisgreiningu (e. Double Materiality).

Þar er áhersla lögð á að greina og meta áhættu og tækifæri hvers mikilvægisþáttar auk fjárhagslegra, umhverfislegra og samfélagslegra áhrifa. Ennfremur voru áhrif kortlögð út frá viðtölum við hagaðila félagsins með tilliti til mikilvægis og viðhorfa þeirra til sjálfbærniþátta Sýnar. Langbrók ráðgjöf ehf. vann að tvöföldu mikilvægisgreiningunni í samráði við sjálfbærni stýrihóp félagsins. Tvöföld mikilvægisgreining er mikilvægur grunnur fyrir efnistök árs- og sjálfbærniskýrslu Sýnar og fyrir langtíma stefnumótandi áherslur félagsins í sjálfbærnimálum, þar sem áhætta, áhrif og tækifæri félagsins á sviði sjálfbærnimála eru kortlögð. Valdir hagsmunaaðilar Sýnar, víðsvegar úr virðiskeðju félagsins tóku þátt í tvöfaldri mikilvægisgreiningu á helstu sjálfbærniáherslum (UFS áherslum) fyrirtækisins. Mikilvægi helstu sjáfbærniþátta/viðfangsefna Sýnar var metið af hagsmunaaðilum og byggir greiningin á viðmiðum ESRS ásamt niðurstöðum hagaðilasamtala við stjórnendur og lykilstarfsmenn Sýnar frá árinu 2022.

Fjárhagsleg áhrif (e. Financial Materiality – Outside-In): Hér er horft til áhrifa umhverfis- og samfélagsmála á efnahagslega afkomu fyrirtækisins. Markmiðið er að kortleggja þá félags- og umhverfisþætti sem geta haft áhrif á starfsemi fyrirtækisins, sem og þau efnahagslegu tækifæri sem þessir þættir geta skapað.

Önnur áhrif (e. Impact Materiality – Inside-Out): Mat á áhrifum af starfsemi fyrirtækisins á umhverfi og samfélag. Markmiðið með þessari kortlagningu felst í því að kortleggja mikilvægustu sjálfbærniþættina sem þarf að mæla og miðla áfram í sjálfbærniskýrslu, svo sem losun gróðurhúsalofttegunda, mannréttindi, auðlindastjórnun, fjölbreytni og inngilding, viðskiptasiðferði og fleira.

Lagt var mat á vægi sjálfbærniþátta og má sjá áhrif þeirra á neðangreindri mynd.

Við notum vefkökur til að bæta upplifun þína á síðunni. Með því að halda áfram að vafra um síðuna samþykkir þú skilmála okkar um notkun á vefkökum, að öðrum kosti getur þú kynnt þér hvernig má stýra notkun þeirra.