Idol

Árið 2023 var svo sannarlega ár Idolsins. Í febrúar fór fram úrslitakvöld í Idolhöllinni þar sem met var slegið í símakosningu. Saga Matthildur var sigurvegari Idol árið 2023 en í lokaþættinum var tilkynnt að strax yrði ráðist í aðra þáttaröð sem fór í loftið í nóvember 2023. Í þáttunum fær ungt og upprennandi tónlistarfólk tækifæri til þess að starfa með mörgu fremsta fagfólki tónlistarbransans á Íslandi auk þess að fá þjálfun í sviðsframkomu í beinni útsendingu.

Kviss

Kviss hefur svo sannarlega sprungið út en önnur þáttaröð Krakkakviss fór í loftið á vormánuðum, fjórða þáttaröð Kviss í september og þátturinn Kviss ársins þar sem farið var á skemmtilegan hátt yfir atburði líðandi árs var frumsýndur í lok ársins við gríðarlega góðar undirtektir og verður leikurinn endurtekinn á nýju ári.

Sögur - verðlaunahátíð barnanna

Verk Stöðvar 2 fengu fjölda tilnefninga á þessari merku hátíð þar sem börnin velja sína uppáhalds sjónvarpsþætti. Tilnefningar ársins voru fyrir Krakkakviss, Idol og Stóra sviðið.

Úrslitakeppnin í körfubolta

Umgjörð og umfang Íslandsmótsins í körfubolta stækkar með hverju árinu. Útsendingar Stöðvar 2 Sports frá lokaúrslitaeinvígi Tindastóls og Vals voru með þeim stærstu sem stöðin hefur ráðist í og var áhorfsmet slegið á íslenskum körfuboltaleik þegar oddaleikur liðanna um Íslandsmeistaratitilinn fór fram.

Besta deildin

Allir leikir Bestu deilda karla og kvenna voru sýndir með íslenskri lýsingu sumarið 2023, auk þess sem allir leikir voru gerðir upp með metnaðarfullri dagskrárgerð. Umfjöllun Stöðvar 2 Sports um íslenskan fótbolta hefur aldrei verið veglegri.

Landsliðið

Stöð 2 Sport tryggði sér sýningarrétt á leikjum Íslands um mitt ár 2023 og sýndi alla landsleiki um haustið í opinni dagskrá. Áhorf var sérstaklega gott enda nýtur Stöð 2 Sport þess að nánast allir landsmenn geta nálgast útsendingar okkar með lágmarks fyrirhöfn.

Eddan

Íslensk kvikmynda- og þáttagerð á Stöð 2 fékk í heild ríflega 20 tilnefningar til Eddunnar. Þættirnir Leitin að upprunanum og Jón Arnór urðu hlutskarpastir í sínum flokkum. Tilnefningar til Eddunnar eru mikil viðurkenning og gæðastimpill fyrir fólkið sem stendur á bak við efnið sem framleitt er bæði af framleiðsludeild Stöðvar 2 og framleiðslufyrirtækjunum sem Stöð 2 starfar með.

Kryddsíld

Í Kryddsíld Fréttastofu Stöðvar 2 var að venju tekið á móti forystufólki stjórnmálaflokkanna í beinni útsendingu í sjónvarpssal. Boðið var uppá þá nýbreytni að hægt var að kaupa aðgang að viðburðinum sem gaf mjög góða raun og vakti mikla athygli.

Ævintýraheimur barna

Á árinu 2023 hélt Ævintýraheimur barna á Stöð 2 áfram að vaxa og dafna. 13 nýjar þáttaraðir bættust við áður fjölbreytt úrval talsetts barnaefnis en þar af eru þrjár íslenskar þáttaraðir. Í Ævintýraheimi barna má einnig finna allar þáttaraðir Skoppu og Skrítlu frá upphafi og má því með sanni segja að heimili Skoppu og Skrítlu sé á Stöð 2.

Jólahúsið

Í desember var gestum og gangandi í Kringlunni boðið í Jólahús Stöðvar 2. Þar gafst jafnt stórum sem smáum kostur á því að upplifa smá töfra í skammdeginu, hitta jólasveina, Skoppu og Skrítlu, Birgittu Haukdal sem las upp úr bókunum um Láru og Ljónsa og njóta ljúfra tóna.

147 milljónir söfnuðust í söfnunarþætti Grensás

Í október var þjónustuveri Vodafone umbreytt fyrir söfnunarþátt Grensás í samstarfi við RÚV. Útsendingin fór fram hjá RÚV í Efstaleiti og í þjónustuveri Vodafone að Suðurlandsbraut 8. Vodafone sá söfnuninni fyrir öruggri fjarskiptaþjónustu við áheitasöfnunina sem fór fram í gegnum síma eða með sms. Öll lögðust á eitt og 147 milljónir söfnuðust til Grensás sem sér um endurhæfingu fólks sem hefur orðið fyrir alvarlegum áföllum vegna slysa eða sjúkdóma.

140 5G sendar um allt land

5G uppbygging Sýnar lék áfram stórt hlutverk árið 2023 eins og fyrri ár. Alls hafa 140 5G sendar verið settir upp til að tryggja farmúrskarandi nettengingar fyrir viðskiptavini Vodafone og verður fjöldinn orðinn 200 sendar í árslok 2024.

Vodafone Sport í loftið

Viaplay og Sýn gerðu með sér tímamóta samstarfssamning á árinu. Hluti af samningum er ný línuleg sjónvarpsrás og einkaréttur Sýnar til að selja Viaplay vörur í áskriftarpökkum Vodafone og Stöðvar 2. Það var mikið ánægjuefni að kynna viðskiptavinum nýja línulega sjónvarpsrás Vodafone Sport þar sem allt það besta frá Viaplay Sport er sýnt hverju sinni.

Tilnefnt sem besta alþjóðlega vörumerki á Íslandi

Vodafone var eitt fimm fyrirtækja sem hlaut tilnefninguna besta íslenska vörumerkið árið 2023 í flokki alþjóðlegra vörumerkja á Íslandi. Vörumerkjastofan Brandr stendur fyrir verðlaununum en útnefningu hljóta þau vörumerki sem skara fram úr þegar horft er til stefnumiðaðrar vörumerkjastýringar.

Hlustendaverðlaun 2023

Hlustendaverðlaunin voru haldin með pompi og prakt í Háskólabíói í tíunda skipti. Verðlaunahátíðin hefur sýnt og sannað hversu mikilvægt það er fyrir íslenskt tónlistarfólk að fá stuðning og viðurkenningu frá hlustendum sínum.

Vísir 25 ára

Vísir bauð til heljarinnar veislu í Gamla bíói í tilefni 25 ára afmælis vefsins. Á þeim aldarfjórðungi hafa fjölmargir starfað á miðlinum og átt sinn þátt í þeim árangri sem miðillinn hefur náð. Öllu var tjaldað til, haldnar voru ræður og útvarpsmaðurinn Bragi Guðmundsson þeytti skífum og hélt uppi stuðinu. Á þriðja hundrað fyrrverandi og núverandi starfsfólks skáluðu fyrir síðustu 25 árum og gömul og góð augnablik voru rifjuð upp. Mikil gleði var við þessa endurfundi gamalla samstarfsfélaga og vina.

Bylgjulestin

Bylgjulestin var á ferð og flugi yfir hásumarið þar sem Bylgjan ferðaðist landshluta á milli, sendi út í beinni og bjó til enn sterkari tengingar fyrir utan höfuðborgarsvæðið.

360° götumyndataka Já.is

Í sumar ók sérútbúinn bíll frá Já.is um landið og tók 360° götumyndir í sjötta sinn. 360° myndirnar eru með GPS hnitum og eru aðgengilegar á kortavef Já.is. Endurnýjaðar voru myndir af helstu þéttbýlisstöðum á landsbyggðinni sem og hverfum á höfuðborgarsvæðinu sem tekið hafa hvað mestum breytingum síðastliðið ár. Einnig voru myndir teknar í fyrsta sinn á nokkrum stöðum, meðal annars á Kárahnjúkavirkjun og í Grímsey.

Þjóðhátíð 2023

Þjóðhátíð í Vestmannaeyjum er hápunktur sumarsins eða jafnvel ársins fyrir marga. FM957 hefur á undanförnum árum verið áberandi á hátíðinni sem og í umfjöllun um hátíðina og árið 2023 var engin undantekning þar á. FM957 var í beinni útsendingu yfir hátíðina sjálfa og hélt einnig upp stuðinu í Dalnum.

Menningarnótt - Bylgjutónleikar

Menningarnæturtónleikar Bylgjunnar voru haldnir í Hljómskálagarðinum þar sem þúsundir komu saman og hlýddu á tónlist frá stórstjörnum íslensks tónlistarlífs. Veðurblíðan var mikil og í Hljómskálagarðinum voru matarvagnar svo áhorfendur gátu gætt sér á ljúffengum mat á meðan tónleikunum stóð.

Bylgjan órafmögnuð

Tónleikaröðin Bylgjan órafmögnuð fór fram í Bæjarbíói í nóvember og desember en þar kom fram margt af fremsta tónlistarfólki landsins, fluttu tónlistina sína ásamt því að segja áhorfendum í sal og hlustendum heima í stofu sögur tengdar tónlistinni og úr sínu persónulega lífi.

Við notum vefkökur til að bæta upplifun þína á síðunni. Með því að halda áfram að vafra um síðuna samþykkir þú skilmála okkar um notkun á vefkökum, að öðrum kosti getur þú kynnt þér hvernig má stýra notkun þeirra.