Árið 2023

Flokkunarreglugerð

Flokkunarreglugerð ESB tók gildi á Íslandi 1. júní 2023 með lögum nr. 25/2023 um upplýsingagjöf um sjálfbærni á sviði fjármálaþjónustu og flokkunarkerfi fyrir sjálfbærar fjárfestingar. Lögin voru afturvirk til 1. janúar 2023 og gilda því um allt fjárhagsárið 2023.

Tilgangur reglugerðarinnar er að skilgreina hvaða atvinnustarfsemi telst vera umhverfislega sjálfbær út frá tæknilegum matsviðmiðum sem koma fram í framseldri reglugerð Evrópusambandsins (ESB) 2021/2139 og á að stuðla að gagnsæi í sjálfbærniupplýsingagjöf. Til að fyrirtæki geti talist umhverfislega sjálfbær í skilningi reglugerðarinnar þurfa þau að uppfylla viðmið fyrir umhverfislega sjálfbæra atvinnustarfsemi samkvæmt 3. gr. reglugerðarinnar. Í fyrsta lagi þarf atvinnustarfsemin að stuðla verulega að einu eða fleiri umhverfismarkmiðum, á sama tíma má hún ekki skaða önnur markmið. Hún þarf að vera stunduð í samræmi við lágmarks verndarráðstafanir, er varðar m.a. aðgerðir gegn spillingu og vernd mannréttinda í starfseminni. Auk þess þarf fyrirtækið að hlíta tæknilegum matsviðmiðum.

Umhverfismarkmiðin eru sex: mildun loftslagsbreytinga, aðlögun að loftslagsbreytingum, sjálfbær notkun og verndun vatns- og sjávarauðlinda, umskipti yfir í hringrásarhagkerfi, mengunarvarnir og eftirlit með mengun, og vernd og endurheimt líffræðilegrar fjölbreytni og vistkerfa. Tæknileg matsviðmið fyrir mildun og aðlögun að loftslagsbreytingum hafa verið innleidd með framseldri reglugerð 2021/2139 og atvinnustarfsemi sem þar er tekin fram fellur undir upplýsingaskyldu á Íslandi en framseld reglugerð 2023/2486 um önnur umhverfismarkmið tók gildi innan ESB árið 2023 og bíður innleiðingar hér á landi.

Gerð er krafa um að fyrirtæki birti hlutfall veltu, fjárfestingargjalda og rekstrargjalda fyrir nýliðið rekstrartímabil á hæfri starfsemi, það er starfsemi sem fellur undir flokkunarreglugerðina. Að sama skapi skal birta sömu lykilmælikvarða fyrir starfsemi sem uppfyllir öll viðmið reglugerðarinnar og telst vera samræmd starfsemi eða umhverfislega sjálfbær.

Á Íslandi gildir reglugerðin um fyrirtæki sem falla undir skyldu til að skila ófjárhagslegum upplýsingum skv. gr. 66 d. í ársreikningalögum nr. 3/2006 og er Sýn þar á meðal.

Hæf starfsemi Sýnar í skilningi reglugerðarinnar

Sýn hóf yfirferð á starfsemi sinni í samræmi við tæknileg matsviðmið þar sem starfsemi félagsins var borin saman við þau tæknilegu matsviðmið sem nú þegar hafa verið birt út frá umhverfismarkmiðunum mildun loftslagsbreytinga og aðlögun að loftslagsbreytingum. Við mat á starfseminni kom í ljós að flokkur 6.5: flutningar með mótorhjólum, fólksbifreiðum og léttum atvinnuökutækjum fellur undir umhverfismarkmiðið mildun loftslagsbreytinga og flokkar 8.3: útvarps- og sjónvarpssendingar og dagskrárgerð og 13.3: útgáfustarfsemi á sviði framleiðslu á kvikmyndum, myndböndum og sjónvarpsefni, hljóðupptöku og tónlist falla undir umhverfismarkmiðið aðlögun að loftslagsbreytingum.

Samræmd starfsemi

Til þess að starfsemi teljist samræmd og þar með uppfylla skilyrði flokkunarreglugerðarinnar um að vera umhverfislega sjálfbær þarf hún að vera verulegt framlag (e. substantial contribution) og valda ekki umtalsverðu tjóni (e. do no significant harm), auk þess að uppfylla lágmarks verndarráðstafanir. Kröfurnar eru ítarlegar og ljóst að ef fyrirtæki vilja gefa það út að markmiðin séu uppfyllt með góðri samvisku og þannig að þær standist skoðun þarf mikil grunnvinna að hafa átt sér stað. Þó svo að bílar í eigu og rekstri Sýnar séu allir annað hvort rafmagnsbílar eða svokallaðir hybrid bílar og uppfylli markmiðið um verulegt framlag til mildunar loftslagsbreytinga eru kröfur sem snúa að hjólbörðum þeirra þess eðlis að gera þarf ráðstafanir til að þeir standist viðmið varðandi veltiviðnámsstuðul og ytri snúningshávaða. Eins og stendur næst ekki að uppfylla þær kröfur í bílaflota Sýnar og því er ekki hægt að staðfesta að þeir séu umhverfislega sjálfbærir í skilningi reglugerðarinnar.

Flokkar sem snúa að útvarps- og sjónvarpssendingum, dagskrárgerð og útgáfustarfsemi efnis falla undir umhverfismarkmiðið; aðlögun að loftslagsbreytingum. Þar eru víðamiklar kröfur gerðar til framkvæmdar loftslagsáhættu- og veikleikamats með tilliti til aðlögunar að loftslagsbreytingum. Matið skal gert í fjórum skrefum út frá umfangi starfseminnar og væntum líftíma og koma skal fram með aðlögunarlausnir sem draga úr helstu efnislegu loftslagsáhættum. Slíkt mat hefur ekki farið fram á starfsemi Sýnar og því ekki hægt að staðfesta loftslagsáhættur á starfsemi fyrirtækisins, en vinna við slíkt mat mun fara fram á árinu 2024 með það að markmiði að staðfesta umhverfislega sjálfbærni starfseminnar fyrir næsta ár.

Sýn mun því ekki upplýsa um hlutfall umhverfislega sjálfbærrar starfsemi fyrir árið 2023 en stefnir að því að þær upplýsingar verði birtar fyrir árið 2024 með vissu um rétta og staðfesta upplýsingagjöf. Reikningsskilaupplýsingar byggja því á útreikningum á hæfi (e. eligible) starfsemi og er vísað í ársreikning félagsins er varðar útreikning á lykilmælikvörðum. Nánari upplýsingar er að finna í ársreikningi Sýnar.

Við notum vefkökur til að bæta upplifun þína á síðunni. Með því að halda áfram að vafra um síðuna samþykkir þú skilmála okkar um notkun á vefkökum, að öðrum kosti getur þú kynnt þér hvernig má stýra notkun þeirra.