Við notum vefkökur til að bæta upplifun þína á síðunni. Með því að halda áfram að vafra um síðuna samþykkir þú skilmála okkar um notkun á vefkökum, að öðrum kosti getur þú kynnt þér hvernig má stýra notkun þeirra.
Vodafone
Fjarskipti fyrir framtíðina
Hjartað í Vodafone
Vodafone er tækni- og þjónustudrifið vörumerki sem gerir yfir hundrað þúsund Íslendingum kleift að tengjast á hverjum degi bæði í leik og starfi. Ánægja og tryggð viðskiptavina skiptir öllu máli og slær rauða hjartað í Vodafone alla daga fyrir því að einfalda líf viðskiptavina. Vodafone nýtir tæknina til góðs og hefur þannig raunveruleg áhrif á samfélagið. Vodafone hefur metnað fyrir því að ná árangri og stöðugt er unnið að umbótum og framþróun til að ná þeim markmiðum sem hafa verið sett. Framúrskarandi upplifun viðskiptavina er ávallt í forgrunni.
Starfsfólk Vodafone hefur mikla þekkingu og reynslu í fjarskiptum. Vodafone er eitt þekktasta vörumerki heims en vörumerkjaþekking Vodafone á Íslandi mælist 100% meðal almennings á Íslandi og um 83% landsmanna telja sig þekkja Vodafone vel eða mjög vel. Myndmerki Vodafone og myndheimur um allan heim er mikill aðgreiningarþáttur og auðþekkjanlegur. Myndheimurinn er raunverulegur, fjölbreyttur, rauður og hlýr. Vodafone á Íslandi er hluti af Vodafone Group sem veitir félaginu tækifæri til þekkingaröflunar ásamt aðgengi að þekkingarríku starfsfólki í fjarskiptum og tækni um allan heim, sem skapar gríðarlegt samkeppnisforskot. Áhersla er lögð á að skapa stafrænt samfélag þar sem öll geta tekið þátt óháð félagslegri og efnahagslegri stöðu, aldri og kyni. Stafræn tækni er því nýtt til að efla þjónustu við alla landsmenn og skapa bætta upplifun á öllum snertiflötum.
Sem rótgróið vörumerki hefur Vodafone þroskast í takt við tímann og tekið miklum umbreytingum, sérstaklega síðastliðið ár. Sett hafa verið af stað fjölmörg verkefni til að styðja við þessa vegferð ásamt því að ferlar hafa verið einfaldaðir og fjöldi tækniverkefna hafa verið sett af stað fyrir fyrirtækið, fyrir samfélagið og í þágu umhverfisins.
Einfaldari þjónusta
Oft er talað um rauða hjartað innan Vodafone, en rauða hjartað brennur fyrir því að skapa betri upplifun fyrir viðskiptavini og margar hugmyndir að bættri upplifun byrja eftir samtöl þvert á deildir. Í þjónustustefnu Vodafone er lögð rík áhersla á að hlusta á viðskiptavini og leita leiða til að fara fram úrvæntingum þeirra.
Á árinu 2023 var unnið að fjölmörgum verkefnum til að tryggja viðskiptavinum bestu mögulegu upplifun á þjónustu Vodafone. Með gæði að leiðarljósi hefur Vodafone lagt mikla áherslu á að tryggja viðskiptavinum besta mögulega endabúnað (e. router) og burðarlag. Ánægja viðskiptavina hefur aukist jafnt og þétt allt árið samkvæmt rauntíma NPS mælingum félagsins. Meðmælaskor (NPS) viðskiptavina Vodafone fer ört vaxandi á milli ára samkvæmt markaðsrannsóknafyrirtækinu Prósent.
Snjallheimsókn
Eftir ítarlega rýni á þjónustumælingum um netgæði á íslenskum heimilum og áskoranir viðskiptavina við hámörkun á netgæðum inni á heimilinu þróaði starfsfólk Vodafone nýja þjónustuleið, Snjallheimsókn, þar sem viðskiptavinir geta pantað snjallhetjur frá Vodafone heim til þess að besta netgæði heimilisins. Heimili landsmanna geta verið mjög mismunandi í hönnun og gerð ásamt því að þarfir íbúa og búnaður er fjölbreyttur. Með Snjallheimsókn greina tæknisérfræðingar Vodafone netgæði í öllum rýmum heimilisins, skoða og uppfæra búnað ef þess þarf og svara stórum og smáum spurningum. Viðskiptavinir fá ítarlega skýrslu um netgæðin og ráð til úrbóta ef þess er þörf. Fleiri hundruð heimili hafa fengið Snjallheimsókn á höfuðborgarsvæðinu og ánægja viðskiptavina mælist 4,85 af 5 mögulegum ásamt því að 96% viðskiptavina segjast munu mæla með Snjallheimsókn við aðra. Áform eru um að opna fyrir þjónustuna á Akureyri og fleiri stöðum á landsbyggðinni bæði fyrir einstaklinga og fyrirtæki.
Þetta hafa viðskiptavinir að segja um heimsóknir frá snjallhetjum Vodafone:
• Framkoma og áhugi tæknimannanna til fyrirmyndar
• Tæknimennirnir voru frábærir í alla staði, fóru yfir allt hjá mér og græjuðu á staðnum allt sem þurfti að laga, ég er mjög ánægð með heimsóknina
• Lipur og fagleg þjónusta - redduðu mér strax rafmagnsmanni sem kom strax og græjaði og mættu svo með réttan búnað. Vandamálið úr sögunni og við alsæl með netið á heimilinu Takk fyrir okkur og konfektið var punkturinn yfir i-ið :)
• Tveir dásamlegir piltar, sem leystu vandamálin upp á tíu!
• Persónuleg þjónusta og allar tímasetningar stóðust
Allt er upplifun
Vodafone fór nýjar leiðir á árinu til að tryggja góða stafræna upplifun. Á árinu var Vodafone fyrst íslenskra fjarskiptafélaga til að kynna til leiks 10xOfurhraða sem er 10 sinnum meiri hraði á nettengingu til heimila. 10xOfurhraði er skref inn í framtíðina fyrir heimili og fyrirtæki sem vilja enn meiri hraða og bætta upplifun með ljósleiðaratengingu. Heimili í dag ná allt að 1 gígabita hraða á sekúndu með ljósleiðara en með þessari nýju tengingu getur sá hraði orðið tífaldur eða 10 gígabit. Samhliða 10xOfurhraða opnaði Vodafone fyrsta háhraða herbergi Íslands í Arena Gaming með það að markmiði að styrkja sambandið við þann markhóp þar sem nethraði og netgæði skipta hvað mestu máli. Einnig tengdist Vodafone DE-CIX í Frankfurt sem er stærsta skiptistöð internets umferðar í heiminum á árinu. Þessi nýja tenging mun efla netgæði og flutninghraða til og frá landinu til muna og efla enn frekar þjónustu við notendur sem þurfa öflugan svartíma eins og t.d. leikjaspilara.
Ný upplifunarverslun var opnuð á Glerártorgi á Akureyri þar sem stafræn upplifun og hringrás fjarskiptatækja er höfð að leiðarljósi. Öll hönnun á framsetningu á búnaði tengdum fjarskiptum, heimilinu og afþreyingu var hugsuð með endurgjöf viðskiptavina að leiðarljósi. Verslunin er búin sex skjám þar á meðal stærsta hringskjá landsins í loftinu sem táknar hringrás fjarskiptatækja. Skjávirknin einfaldar miðlun til viðskiptavina og lágmarkar sóun sem fer í að prenta út merkingar.
Ný vefsíða Vodafone leit dagsins ljós á árinu en við hönnun á vefnum var hugað að því að sjálfvirknivæða ferla. Viðskiptavinir geta nú valið þjónustuleiðir eftir áhugamáli og þörfum eins og stærð fjölskyldu og fjölda barna.
Skemmtilegheitin voru keyrð upp með nýrri ímyndaherferð Sjáðu Rautt -það er skemmtilegra. Hugmyndin að herferðinni varð til eftir samtöl við starfsfólk og viðskiptavini. Samhliða herferðinni opnaði Vodafone á Spotify og gaf út nýtt lag - Ég sé rautt. Lagið náði á topplista útvarpstöðva.
Jólin voru líka rauð á árinu en Vodafone umbreytti strætóskýli við Kringlumýrarbraut í Reykjavík í rauða jólastofu til að gleðja fólk á ferðinni ásamt því að minna fólk á að jólaundirbúningur á að vera afslappaður og huggulegur. Stofan var fullbúin, upphituð og með tengdu sjónvarpi sem spilaði jólamyndir af Vodafone Leigunni.
Meira nýtt og meiri skemmtun
Árið 2023 einkenndist af hraðri vöruþróun með fjölmörgum nýjungum í vöruframboði og enn þá meiri skemmtun. Vörur og þjónustuleiðir voru þróaðar með það að leiðarljósi að gefa viðskiptavinum meira val og fjölbreytni þegar kemur að fjarskiptum og afþreyingu. Sem dæmi má nefna nýja áskriftarpakka með net og afþreyingu, 10xOfurhraða, VoWifi (Voice over Wifi), eSim í úr og síma - Eitt númer í mörg tæki og Snjallheimsókn.
Gerður var víðtækur samningur við Viaplay Group á árinu sem fól í sér einkarétt á sölu á vörum Viaplay með vörum Vodafone og Stöðvar 2. Allir áskriftarpakkar Vodafone fengu Viaplay streymisveituna ásamt því að fá aðgengi að nýrri línulegri sjónvarpsrás, Vodafone Sport. Á sjónvarpsrásinni eru helstu viðburðir af sporti á Viaplay sýndir þar sem áhersla er lögð á að færa viðskiptavinum framúrskarandi upplifun og hágæða sjónvarpsefni á betra verði.
5G allan hringinn
5G uppbygging Sýnar lék áfram stórt hlutverk árið 2023 eins og fyrri ár. Alls hafa 140 5G sendar verið settir upp til að tryggja farmúrskarandi nettengingar fyrir viðskiptavini Vodafone og stefnt er að því að þeir verði orðnir 200 í árslok 2024. 5G samband næst nú í 55 bæjarfélögum, ásamt helstu sumarhúsasvæðum á landinu. Sífellt fleiri viðskiptavinir Vodafone velja einfaldleikann sem 5G býður upp á. Þessi nýja tækni býður upp á enn meiri hraða og stöðugleika í nettengingum sem hentar fyrirtækjum, einstaklingum og heimilum. Á ýmsum stöðum þar sem tengimöguleikar voru takmarkaðir áður, hefur uppbygging 5G kerfisins stórbætt samband og hefur upplifun og endurgjöf viðskiptavina Vodafone verið gríðarlega jákvæð. Fjarskiptastofa kynnti niðurstöður úr rannsókn þar sem gæðaprófanir á farsímakerfum á Íslandi voru skoðaðar. Þýska sérfræðifyrirtækið Rohde & Schwars sá um framkvæmdina á gæðaprófuninni. Niðurstöður prófana sýndu að þau svæði sem hafa 5G tengingar skila betri farsímagæðum og mældist Vodafone með framúrskarandi einkunn í dekkun og gæðum á 5G.
Voda gott samband
Viðskiptavinir nutu áfram góðs af alþjóðlegum samningum Vodafone á ferðalögum um allan heim og hringdu heim til Íslands frá yfir 140 löndum árið 2023. Áhersla hefur verið lögð á að þétta 5G reiki erlendis og undir árslok gátu viðskiptavinir notað 5G hjá 105 erlendum fjarskiptafélögum í 62 löndum. Jafnframt bættist í VoLTE (e. Voice over Long-Term Evolution) reiki opnanir erlendis og gátu viðskiptavinir hringt VoLTE símtöl hjá 18 erlendum fjarskiptafélögum í 16 löndum. VoLTE eykur gæði símtala (háskerpusímtal) en er jafnframt nauðsynlegur þáttur til að hefðbundin símtöl geti átt sér stað eftir að slökkt hefur verið á 2G og 3G kerfum fjarskiptafélaga.
Á árinu 2023 var viðskiptavinum boðið að bæta símasamband með VoWifi sem tryggir enn stöðugra samband fyrir viðskiptavini Vodafone. Með VoWifi er hægt að hringja þó svo að farsímamerki sé slæmt eða ekki til staðar. VoWiFi kemur þannig til hjálpar á heimilum þar sem skuggasvæði myndast í farsímamerki, t.d. í kjallara. Eins er hægt að hringja símtöl úti á sjó og í flugvélum sé þráðlaust net til staðar.
Öflug fyrirtækjaþjónusta
Þjónusta fyrirtækjasviðs Vodafone snýr að því að styðja við þarfir og markmið fyrirtækja af öllum stærðum og gerðum, allt frá einyrkjum upp í stærstu fyrirtæki og stofnanir landsins. Ríflega 7.000 fyrirtæki treysta Vodafone fyrir fjarskiptum sínum og má þar nefna marga af þeim aðilum sem sinna öryggis- og neyðarþjónustu á Íslandi eins Neyðarlínuna, Landsbjörg, Ríkisútvarpið, Landhelgisgæsluna, Securitas, Landspítalann og Vegagerðina. Þessi fyrirtæki gera miklar kröfur um gæði, öryggi og góða þjónustu sem er Vodafone mikil hvatning um að vera ávallt í fremstu röð. Leiðarljósið í samstarfi Vodafone og viðskiptavina eru góð samskipti með langtímahagsmuni að leiðarljósi. Brottfall á fyrirtækjamarkaði er mjög lítið og var árangur í endurnýjuðum samningum framúrskarandi á árinu 2023. Um 90% af stærstu fyrirtækjum í viðskiptum eru með langtímasamning við fyrirtækið.
Það er stefna Vodafone að vera í fararbroddi á fjarskiptamarkaði. Lögð er mikil áhersla á að greina þarfir markaðarins með nýsköpun og vöruþróun í fyrirrúmi. Það er mikill styrkur fyrir Vodafone að vera í alþjóðlegu samstarfi við Vodafone Group og á þann hátt gefst viðskiptavinum kostur á ráðgjöf á alþjóðamörkuðum og við nýsköpun sem hefur reynst vel og skapað ný tækifæri.
Árið 2023 var áhersla lögð á fræðslu til fyrirtækja með fjölda fræðsluviðburða og fræðandi efnis um tækni. Yfir hundrað gestir frá fyrirtækjum í þjónustu hjá okkur mættu á viðburð um netöryggi. Eins var haldinn fjölsóttur viðburður fyrir konur í tækni á vegum Vertonet sem er hagsmunafélag kvenna í upplýsingatækni.
Hlaðvarp Vodafone, Vodcastið fór í loftið á árinu og þar var meðal annars fjallað ítarlega um IoT tæknina og sjálfbærnitækifæri sem skapast með tækninni.
Tæknin fyrir umhverfið
Framþróun fjarskipta hélt áfram með uppsetningu á nýjum dreifikerfum NB-IoT (e. Narrowband-Internet of Things) og LTE-M (e. Long-Term Evolution Machine Type Communication) sem leysa munu 2G og 3G af hólmi. Þessi nýju dreifikerfi spara orku og draga lengra en eldri tækni gerir og eru því hagkvæmari fyrir samfélagið og umhverfið.
IoT tæknin var nýtt í fjölbreyttum verkefnum í samstarfi við viðskiptavini til að lágmarka umhverfisleg áhrif. Til dæmis með því að nota IoT snjallkort í ruslatunnur og grenndargáma og þannig lágmarka akstur og umhverfisáhrif af akstri með ítarlegum mælingum á notkun. Einnig var IoT tækni notuð í ljósastaura á höfuðborgarsvæðinu með orku- og umhverfissparnaði upp á allt að 40% frá því tæknin var tekin í notkun.
IoT snjallkortin eru endurvinnanleg og með lengri líftíma en hefðbundin kort, en gert er ráð fyrir að þau endist í tækjum í allt að 15 ár.
Vodafone styður við hringrásarkerfið og átti áfram í farsælu samstarfi við Foxway og tók á móti gömlum raftækjum í gegnum verkefnið Notað upp í nýtt. Þannig geta viðskiptavinir Vodafone komið með gömul raftæki í verslun og fengið inneign í staðinn. Starfsfólk Vodafone tekur við tækjunum og sendir þau í endurvinnsluferli hjá Foxway þar sem þau eru yfirfarin og annað hvort endurnýtt eða fargað á réttan hátt. Fyrirhugað er að hefja sölu á notuðum símum og þannig klára hringrásaferlið.
Leiðarljós Vodafone
Hlutverk Vodafone er að einfalda líf viðskiptavina með tækni fyrir framtíðina. Öll sem eitt vinnur starfsfólk daglega að því að skapa betri upplifun fyrir viðskiptavini með hámarksnýtingu á tækni og leitar leiða til þess að einfalda vörur og þjónustur. Það má með sanni segja að árangur Vodafone árið 2023 hafi verið góður og hafa verið sett metnaðarfull markmið fyrir árið 2024 sem koma til með að einfalda líf viðskiptavina enn frekar.