Árið 2023

Framsæknir miðlar

Fjölmiðlar Sýnar hafa sýnt fram á stöðugan vöxt á árinu 2023 en samkvæmt mælingum Gallup nota 76,5% allra landsmanna fjölmiðla Sýnar daglega og 94,4% vikulega.

Fjölmiðlar Sýnar einkennast af sjálfstæði, fagmennsku og ábyrgð en efni þeirra endurspeglar íslenskt samfélag með framúrskarandi íslenskt fréttaefni og framleiðslu á menningar-, fræðslu- og skemmtiþáttum. Íslenskt íþróttaefni er félaginu einnig mikilvægt og er lögð rík áhersla á að stuðla að jafnvægi í umfjöllun um íþróttir óháð kyni.

Auk þess leggur Sýn ríka áherslu á að stuðla að nýsköpun og framþróun til að tryggja sem besta þjónustu og upplifun fyrir viðskiptavini og hagaðila.

Á fjórða ársfjórðungi var gengið frá kaupum á já.is. Í kjölfarið voru rekstrareiningarnar Vefmiðlar og útvarp og Stöð 2 settar á laggirnar. Þessi breyting mun skerpa enn betur á rekstri fjölmiðla Sýnar og er gerð til að styrkja báðar einingar og byggja upp virði fyrir félagið. Fréttastofa Vísis, Stöðvar 2 og Bylgjunnar starfar áfram þvert á þessar einingar.

Stöð 2 og Stöð 2+

Á árinu 2023 var lykiláhersla lögð á fjölbreytt íslenskt dagskrárefni sem snertir íslenskt samfélag. Slagorð Stöðvar 2 er „ margfalt skemmtilegri” og voru þessi orð höfð að leiðarljósi í þáttagerð stöðvarinnar til að stuðla að jákvæðri upplifun áskrifenda sem og jákvæðum áhrifum á íslenskt samfélag.

Stöð 2 er bæði framleiðandi að íslensku dagskrárefni auk þess að vera í samstarfi við öll helstu framleiðslufyrirtæki landsins. Á árinu 2023 voru frumsýndar 25 nýjar íslenskar þáttaraðir, allt frá fréttatengdu efni yfir í leikið efni, raunveruleika- og skemmtiefni. Að auki eru fréttir í beinni útsendingu alla daga ársins og dægurmálaþátturinn Ísland í dag fjóra daga vikunnar. Rík áhersla hefur verið á að styrkja dagskrána um helgar með hágæða skemmtiefni eins og Kviss og Idol í bland við gæða erlent efni, eins og til dæmis HBO seríuna Succession sem var sýnd á haustmánuðum, og stuðla þannig að samáhorfi fjölskyldunnar. Stefna Stöðvar 2 til framtíðar er að halda áfram að styrkja innlenda þáttagerð.

Vöxtur streymisveitunnar Stöð 2+ hefur verið í öndvegi á árinu en tugþúsundir Íslendinga kjósa að nálgast dagskrárefni í gegnum miðilinn. Lykiláhersla hefur verið lögð á að skapa gott jafnvægi milli línulegu stöðvarinnar og streymisveitunnar með breyttum áherslum á útgáfu efnis þar sem hvor miðill fyrir sig fær að njóta sín.

Í september fékk Stöð 2 nýtt útlit þar sem lögð var áhersla á gott flæði milli dagskrárliða á línulegu stöðinni sem og að styrkja vörumerkið Stöð 2 með fjölbreyttari litaflóru og grafík sem endurspeglar fjölbreytileika stöðvarinnar. Breytingin var unnin í samstarfi við breska ráðgjafafyrirtækið Red Bee sem eru fremst í flokki þegar kemur að útliti og upplifun á sjónvarpsstöðvum og streymisveitum.

Sú nýjung varð árið 2023 að á streymisveitunni Stöð 2+ gátu notendur valið prófíla fyrir alla fjölskyldumeðlimi með vinsælum og skemmtilegum karakterum Stöðvar 2. Með þessu móti varð notendaupplifunin í ólínulega heiminum betur miðuð að persónulegum þörfum hvers og eins notanda.

Fréttastofan alltaf á vaktinni

Stríð í Evrópu, grjótharðar vinnudeilur, útlendingamál, hvalveiðibann og -deilur, bankasala, verðbólgubál og ekki síst viðvarandi skjálftar og gos með rýmingu Grindavíkurbæjar voru meðal helstu fréttamála ársins hjá fréttastofu Vísis, Stöðvar 2 og Bylgjunnar.

Fréttamenn stóðu vaktina, í nokkrum tilfellum á sólarhringsvakt og beinar fréttaútsendingar voru tíðar; hvort sem það voru mótmæli í hvalskipum eða hraun að renna inn í Grindavíkurbæ.

Þetta mikla fréttaár kallaði á fjölda beinna vakta á Vísi. Beinar sjónvarpsútsendingar á Vísi voru tvö hundruð talsins, skjálftar og gos voru í beinni í vefmyndavél allan sólarhringinn, flogið var í þyrlu yfir gosstöðvar og í tveimur tilfellum þótti ástæða til að hafa aukafréttatíma vegna atburða. Þá var farið í fjölda fréttaferða; Magnús Hlynur fór út um allt land til að segja fréttir af fólki og dýrum og einnig var farið út fyrir landssteinana, meðal annars fylgdi fréttamaður forsætisráðherra til Helsinki þar sem hún hitti forseta Úkraínu og að sjálfsögðu var fylgst grannt með Eurovision með lifandi fréttaflutningi frá Liverpool.

Fastir liðir voru á sínum stað á árinu; Kryddsíld fékk mikið áhorf við það að hægt var að kaupa stakan þátt, annálarnir voru gífurlega vinsælir bæði á Stöð 2 og Vísi og á fjórða tug Pallborða voru í beinni útsendingu á Vísi þar sem farið var yfir heitustu fréttamálin.

Nýtt fréttasett var frumsýnt í lok árs og um leið fjölgaði gestum í setti margfalt. Nú kemur viðmælandi í myndver í meirihluta fréttatíma og Pallborðið nýtur sín enn betur. Fréttastofa sló met í tilnefningum á árinu með fjórum tilnefningum til Blaðamannaverðlaunanna og tveimur til Edduverðlauna. Tvenn verðlaun komu í hús þetta árið sem er frábær árangur.

Vísir var vinsælasti vefur ársins þriðja árið í röð með 214 þúsund daglega gesti. Þáttagerð á Vísi blómstraði með nýjum liðum og fjórir Kompásþættir voru sýndir sem vöktu mikla athygli.

Árið 2023 einkenndist af hröðum fréttaflutningi, viðbragði fréttastofu við stórum viðburðum innanlands sem utan og má með sanni segja að fréttastofan hafi alltaf verið á vaktinni.

Stöð 2 Sport

Mikill stöðugleiki hefur verið í áskriftum að Stöð 2 Sport en stefnan er að það séu að jafnaði um 20.000 manns í áskrift. Lögð er sérstök áhersla á að vera með öfluga íslenska umfjöllun um íþróttir. Á innlendum vettvangi er afar ítarleg umfjöllun um fótbolta og körfubolta sem tvinnast vel við þá mikla flóru erlendra íþrótta sem Stöð 2 Sport sýnir.

Stöð 2 Sport framleiðir mikið af eigin efni, hvort sem er beinar útsendingar frá leikjum á innlendum vettvangi eða umfjöllunar- og uppgjörsþætti.

Stöð 2 Sport framleiddi meira en 600 beinar útsendingar frá íslenskum íþróttaviðburðum á síðasta ári. Sýnt var beint frá fótbolta, körfubolta, handbolta, tennis, pílukasti, keilu og hnefaleikum. Þá var einnig fjöldi beinna útsendinga frá íslenskum rafíþróttum á Stöð 2 Esport.

Meira en 200 umfjöllunarþættir voru framleiddir um íslenskar íþróttir og á annað hundrað þættir um erlendar íþróttir.

Erlendar íþróttir gegna einnig veigamiklu hlutverki á Stöð 2 Sport þar sem evrópskur fótbolti er fyrirferðarmikill. Þá eru einnig reglulega útsendingar frá tveimur stærstu atvinnumannadeildunum, NFL og NBA, sem og stærstu golfviðburðum heims, bæði hjá körlum og konum.

Efnisveita Stöðvar 2 Sports hefur verið í stöðugri þróun. Beinar útsendingar eru nú aðgengilegar á forsíðu og upptökur af þáttum, leikjum og helstu atvikum leikja eru aðgengileg fyrir áskrifendur hvenær sem er.

Stöð 2 Sport hefur sinnt heimildaþáttagerð af miklum metnaði og unnið til Edduverðlauna fyrir þættina „Jón Arnór“ og „Víkingar: Fullkominn endir“. Mörg metnaðarfull verkefni eru í vinnslu og verða nýjar þáttaraðir sýndar á haustmánuðum.

Íþróttir

Megináhersla og markmið íþróttadeildar er að bjóða upp á hágæða fréttaflutning og umfjöllun um íþróttir á íslensku, hvort sem er innlendar eða af alþjóðlegum vettvangi. Á árinu var af nógu að taka, enda mikill fjöldi viðburða í beinni útsendingu og fjölmargir þættir framleiddir, hvort sem er umfjöllunarþættir eða heimildaþættir.

Sérstakt ánægjuefni var að bjóða íslenska karlalandsliðið í fótbolta velkomið heim á Stöð 2 Sport um mitt síðasta ár þegar samningar tókust á milli Sýnar hf. og Viaplay Group um að Stöð 2 Sport tæki yfir sýningarrétt leikja íslenska landsliðsins. Leikirnir voru í opinni dagskrá þökk sé einkar farsælu samstarfi við auglýsendur og mældust útsendingarnar með mjög mikið áhorf hjá íslensku þjóðinni. Það er bjart fram undan hjá íslenska landsliðinu og verður áhugavert að fylgjast með næstu verkefnum liðsins. Í mars kemur í ljós hvort Íslandi takist að tryggja sér þátttökurétt á EM 2024 í Þýskalandi.

Á síðasta ári voru allir leikir Bestu deilda kvenna og karla sýndir í beinni útsendingu með lýsingu. Um gríðarlega metnaðarfullt verkefni var að ræða enda í fyrsta sinn verið að taka það skref að lýsa öllum leikjum í beinni útsendingu. Það heppnaðist vel og hlaut góðar viðtökur áskrifenda. Snemma árs 2024 var beinum útsendingum fjölgað í Subway deildunum í körfubolta og er markmiðið að gera slíkt hið sama fyrir íslenskan körfubolta áður en langt um liður.

Efnisveita Stöðvar 2 Sports heldur áfram að stækka og þjónusta okkar vörur. Síðastliðið sumar var mjög fjölbreytt framboð af myndböndum fyrir hvern leik í Bestu deildum karla og kvenna sem var aðgengilegt öllum stundum fyrir áskrifendur.

Mikill fjöldi umfjöllunarþátta um íslenskar og erlendar íþróttir voru framleiddir á árinu um íslenskan fótbolta, handbolta og körfubolta, Meistaradeild Evrópu, ensku bikarkeppnina sem og bandarísku NFL- og NBA-deildirnar.

Annað árið í röð var stærsta útsending Stöðvar 2 Sports árinu frá oddaleik Vals og Tindastóls í lokaúrslitum Íslandsmóts karla í körfubolta. Annað árið í röð var áhorfsmet frá íslenskum íþróttaleik slegið hjá Stöð 2 Sport en umgjörð, umtal og umfjöllun um leik liðanna þann 18. maí 2023 var meiri en nokkru sinni fyrr þegar um innlendan íþróttaviðburð er að ræða.

Miðlar og útvarp

Vísir – fyrstur með fréttirnar!

Þriðja árið í röð var Vísir vinsælasti vefur landsins þegar horft er til meðalfjölda vikulegra notenda, og mest lesni vefurinn 33 af 52 vikum ársins, samkvæmt netmiðlamælingum Gallup. Á árinu voru daglegir gestir á Vísi rúmlega 214 þúsund og er Vísir sérstaklega sterkur miðill meðal yngri lesenda. Á Vísi má finna mjög fjölbreytt efni. Auk öflugrar fréttaþjónustu í almennum fréttum, dægurmálum og íþróttum er Vísir vinsælasti vettvangur fjölmiðla fyrir aðsendar greinar. Einnig má þar finna allt efni sem framleitt er af útvarpssviði Sýnar og hlaðvarpsveitunni Tal.

Á árinu var mikil aukning í framleiðslu þátta fyrir vefinn. Þættir á borð við Einkalífið, Kúnst, Okkar Eigið Ísland, Skreytum hús, Tork-gaurinn, RAX augnablik, Pallborðið, Helvítis kokkurinn og fleiri héldu áfram göngu sinni á árinu. Nýir þættir litu einnig dagsins ljós, s.s. Jógastaða vikunnar, Veiðin með Gunnari Bender og Jólasaga með Dóru Júlíu. Sjónvarpshluti Vísis hefur aldrei verið vinsælli enda eru þar hátt í 300 þúsund klippur sem eru spilaðar á sjónvarpsstöðinni Stöð 2 Vísi allan sólarhringinn.

Já - er svarið!

Í október 2023 gengu í gegn kaup Sýnar á móðurfélagi Já hf. Já er rótgróið vörumerki og er Já.is einn af mest heimsóttu vefmiðlum landsins með um hálfa milljón notenda á mánuði. Þangað leita einstaklingar til að finna upplýsingar um fólk, fyrirtæki og vörur.

Með kaupunum skapast tækifæri til þróunar á þjónustu og vörum sem geta styrkt bæði Já og aðra vefmiðla Sýnar, auk þess sem þekking og reynsla nýtist á báða bóga.

Stórt verkefni hjá Já á árinu var að þróa áfram sjálfsafgreiðslukerfi sem er aðgengilegt á Já.is, Mitt Já, þar sem bæði einstaklingar og starfsfólk fyrirtækja geta nú skráð upplýsingar, keypt bætta ásýnd á Já.is og nálgast tölfræði um sínar ásýndarleiðir og vörur. Kerfinu fylgja áframhaldandi tækifæri, hvort tveggja til bættrar þjónustu við notendur og viðskiptavini Já sem og til tekjuöflunar með snjöllum lausnum.

Bland.is – Gefum hlutum framhaldslíf!

Á árinu 2023 var gengið frá kaupum á vefmiðlinum og sölutorginu Bland.is, sem áður var þekkt sem Barnaland.is. Í hverjum mánuði innskrá um 25 þúsund einstaklingar sig á Bland.is og skrá mikinn fjölda smáauglýsinga. Þúsundir Íslendinga gera því þar góð kaup á nýjum og notuðum vörum. Þjónustan styður þannig við hringrásarhagkerfið sem fellur vel að sjálfbærnistefnu félagsins. Tækifæri eru til samlegðar með vörum og þjónustum Sýnar sem nýtt verða til frekari vaxtar markaðstorgsins.

Útvarp – Eitthvað fyrir öll!

Útvarpsstöðvar félagsins hafa verið í stórsókn á árinu og bjóða upp á fjölbreytta dagskrá að venju. Samanlagt ná stöðvar félagsins til 89% landsmanna í hverjum mánuði, samkvæmt rafrænum ljósvakamælingum Gallup. Lagt er mikið kapp á að bjóða upp á fjölbreytt úrval tónlistar og umfjöllunar í bland við fréttir og því ætti hver einasti Íslendingur að finna eitthvað við sitt hæfi.

Á árinu voru margir eftirminnilegir viðburðir haldnir með farsælu samstarfi auglýsingadeildar, dagskrárgerðarfólks og markaðsfólks, þar sem hlustendur fengu meðal annars tækifæri til að heyra lifandi tónlist og hitta dagskrárgerðarfólkið okkar. Líkt og fyrri ár ferðaðist Bylgjulestin um landið yfir hásumarið og þá fóru Bylgjan, FM957 og X977 einnig í hringferð um landið á fjórum dögum í leiknum Leikið um landið og kepptu sín á milli í hinum ýmsu þrautum. Hlustendaverðlaunin voru á sínum stað og FM957 kom, sá og sigraði Þjóðhátíð í Vestmannaeyjum þar sem stemningin var rífandi og dagskrá stöðvarinnar lifandi í takt við hátíðarhöldin. X977 krýndi á ný Iðnaðarmann ársins, hörkuspennandi keppni sem fer fram bæði á Vísi.is og að sjálfsögðu í loftinu á X-inu, en það var gull- og silfursmiðurinn Harpa sem bar sigur úr bítum á síðasta ári.

Allar stöðvarnar eru í mikilli sókn í sínum markhópum og kappkosta við að sinna faglegri, traustri og fjölbreyttri umfjöllun um hvaðeina sem snertir íslenskt samfélag, allt frá tónlistarumfjöllun upp í hápólitísk þjóðmál.

Tal - Hlaðvarpsheimur

Hlaðvarpsveitan Tal hélt áfram að dafna á árinu og býður bæði upp á áskriftarhlaðvörp og hlaðvörp sem eru öllum opin. Ný gerð auglýsinga var einnig sett í loftið á árinu, þar sem auglýsendum gefst kostur á að kaupa ákveðinn fjölda auglýsingabirtinga sem dreift er á mörg mismunandi hlaðvörp.

Blökastið er, líkt og fyrra ár, eitt allra vinsælasta áskriftarhlaðvarp landsins. Meðal annarra vinsælla áskriftarhlaðvarpa er fótboltahlaðvarpið Þungavigtin auk þess sem tilkynnt var um endurkomu Tvíhöfða í upphafi árs.

Eitt af markmiðum Tals á árinu var að styðja enn betur við opin hlaðvörp með bættum innviðum og aukinni framleiðslu, en Tal kemur að framleiðslu fjölda hlaðvarpa í opinni dagskrá. Meðal annars var framleidd önnur sería af hlaðvarpinu Eftirmálum, sem vakti verðskuldaða athygli.

Gott ár er í vændum því áfram verður haldið að kynna lausnir sem styðja betur við opin ný hlaðvörp, ásamt fleiri skemmtilegum nýjungum og uppátækjum í hlaðvörpum Tals.

Við notum vefkökur til að bæta upplifun þína á síðunni. Með því að halda áfram að vafra um síðuna samþykkir þú skilmála okkar um notkun á vefkökum, að öðrum kosti getur þú kynnt þér hvernig má stýra notkun þeirra.