Árið 2023

Birgjamat

Sýn hefur frá 2014 verið með birgjamat en þó nánast eingöngu í gegnum Vodafone Procurement Company (VPC) í Lúxemborg, félag sem sér um öll innkaup fyrir Vodafone Group. Athugað er hvort viðkomandi birgi hafi staðist birgjamat hjá VPC en það þykir mikill heiður, og ef svo er þá er sá birgi samþykktur hjá Sýn.

Enn fremur hefur alla tíð verið litið til þess ef verið er að ráða verktaka í útivinnu eða tökumenn í íþróttahúsum, að tekið sé tillit til vinnuverndar. Vinnuvernd lýtur að persónulegu öryggi t.d. vinna í lokuðu rými, vinna upp fyrir sig, jarðvinna, búnaðaröryggismál (vottaður búnaður), vinna í rafsegulsviði, rafmagnsvinna og vinna í mikilli hæð og þurfa viðkomandi að hafa öll leyfi og heimildir eða tryggingar í lagi ásamt því að skrá öryggisatvik. Allir þessir þættir skulu ná til undirverktaka. Sýn tryggir auk þess aukalega það starfsfólk sem vinnur hættulegustu störfin sem nemur dánarbótum og örorkubótum.

Birgjamat með tilliti til UFS

Farið var að horfa til umhverfislegra- og félagslegra þátta ásamt stjórnarhátta við framkvæmd birgjamats árið 2022 og hélt innleiðingin áfram árið 2023. Þar er litið til sameiginlegs virðis, sjálfbærni og hlítni en birgjamat Sýnar tekur til:

• Umhverfismála – Að gengið sé vel um náttúruna við framkvæmdir eins og uppsetningar á sendum. • Mannréttinda – Að réttur starfsfólks sé viðurkenndur, félagafrelsi, kaup og kjör, að starfsfólk geti sinnt starfi sínu án valds eða nauðungar og að ekki sé verið að ráða ólögráða börn. • Þjóðernis fólks og uppruna – Að birgjar og starfsfólk á þeirra vegum hafi jöfn tækifæri án mismunar með tilliti til kyns, kynþáttar, trúarbragða, aldurs, fötlunar, kynhneigðar, þjóðernis eða skoðana. • Mögulegrar spillingar – Að birgjar skuli beita sér gegn spillingu, mútum, fjárkúgunum, svikum og beita viðurkenndum siðareglum í viðskiptum og forðast hagsmunaárekstra milliliða og undirverktaka.

Við vinnslu á ófjárhagslegum upplýsingum er stuðst við UFS leiðbeiningar sem Nasdaq hefur sett fram fyrir skráð fyrirtæki á markaði. Þessi viðmið uppfylla ákveðna þætti hins alþjóðlega staðals Global Reporting Initative (GRI) sem auðveldar fyrirtækjum og stofnunum að miðla upplýsingum um samfélagsábyrgð með gagnsæjum og skýrum hætti. Sýn vinnur þessar upplýsingar í samstarfi við Klappir.

Stefnt er að því að senda birgjamat á alla birgja um leið og starfsmaður óskar eftir heimild til að eiga viðskipti við nýjan birgja. Í kjölfarið verður sent einfalt Excel skjal með spurningum sem lúta einna helst að öryggisatriðum í tengslum við ISO 27001 ásamt því hvort um sé að ræða ábyrgan og stöðugan rekstur.

Búið er að taka saman lista með birgjum, innlendum og erlendum með veltu yfir 10 m. kr. á ári og safna saman tengiliðalista. Stefnt er að því að senda út fyrsta birgjamatið í gegnum Klappir á öðrum ársfjórðungi 2024. Notaðir verða staðlaðir spurningalistar úr kerfinu hjá Klöppum þar sem spurt er um umhverfisþætti, félagslega þætti og stjórnarhætti. Svo verður bætt við spurningum sem lúta að ISO 27001. Ætlunin er að senda birgjamatið á stærstu birgja Sýnar einu sinni á ári héðan í frá.

Samningar við birgja

Í stöðluðu samningsformi fyrir birgja Sýnar hafa verið ákvæði frá 2014 um að birgjar skuli starfa samkvæmt ábyrgri umhverfisstefnu sem hæfir starfsemi þeirra og setja sér markmið þar að lútandi. Enn fremur skulu birgjar tryggja gæði allra þátta í verkefnum sem þeir koma að með kerfisbundnum, skipulegum og skjalfestum hætti. Tekið er fram að Sýn gegni mikilvægu samfélagslegu hlutverki og veiti víðtæka þjónustu sem skiptir miklu máli fyrir innviði félagsins. Sýn tekur hlutverk sitt alvarlega og leggur sig fram við að vera fyrirmynd annarra í ýmsum samfélags- og sjálfbærnimálum. Fyrirtækið fylgir í hvívetna lögum og reglum og einsetur sér að vernda umhverfið og sýna starfsfólki sínu og viðskiptavinum virðingu í öllum samskiptum. Sýn gerir þá kröfu til birgja að þeir geri ekkert sem kann að orka tvímælis hvað þetta samfélagslega hlutverk varðar. Í stöðluðum samningsformum er einnig tekið á peningaþvætti, mútum og spillingu.

Við notum vefkökur til að bæta upplifun þína á síðunni. Með því að halda áfram að vafra um síðuna samþykkir þú skilmála okkar um notkun á vefkökum, að öðrum kosti getur þú kynnt þér hvernig má stýra notkun þeirra.