Árið 2023

Sjálfbærni

Sýn hf. leggur ríka áherslu á góða stjórnarhætti, umhverfis- og félagsþætti í starfsemi sinni. Kjarninn í stefnu félagsins er ábyrgur rekstur og eru stjórnendur staðráðnir í að samþætta sjálfbæra starfshætti í starfsemina og draga úr áhættu tengdri sjálfbærni. Starfsmenn eru vakandi gagnvart nýrri tækni og nýjum lausnum til að auka sjálfbærni í starfseminni.

Sýn fylgir eftir sjálfbærnistefnu og ber forstjóri og stjórnendur ábyrgð á innleiðingu hennar og að hún sé í samræmi við alþjóðamælikvarða á sviði sjálfbærniupplýsingagjafar og meginmarkmiða félagsins til framtíðar. Stýrihópur í sjálfbærni hefur verið starfandi á annað ár hjá Sýn en forstjóri ber ábyrgð á vinnu hópsins. Hlutverk hans er að hafa umsjón með framkvæmd sjálfbærnistefnu, framkvæmd sjálfbærni áhættumats með tilliti til rekstraráhættu, þróa sjálfbærnimarkmið og fylgjast með framförum á sviði sjálfbærni.

Skýrslugjöf

Sýn gefur nú annað árið í röð út árs- og sjálfbærniskýrslu samkvæmt Global Reporting Initiative (GRI) Standards), jafnframt er horft til Heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun. Langbrók ehf. hefur veitt álit með takmarkaðri vissu á sjálfbærniupplýsingagjöf Sýnar vegna ársins 2023. Megináhersla Sýnar er að miðla upplýsingum um þýðingarmikla þætti og sjálfbærniáhrif í starfseminni þannig að hún endurspegli stöðu og árangur á sviði sjálfbærni.

Sjálfbærniupplýsingagjöf Sýnar fellur undir CSRD (Corporate Sustainability Reporting Directive) tilskipun Evrópusambandsins um stór og/eða skráð fyrirtæki sem kemur í stað núverandi laga um ársreikninga um ófjárhagslega upplýsingagjöf (grein 66.d.). CSRD tilskipuninni fylgir nýr sjálfbærnisstaðall, European Sustainability Reporting Standard (ESRS), sem er samræmanlegur GRI sjálfbærnistaðlinum. Á árinu 2023 var framkvæmd tvöföld mikilvægisgreining (e. Double Materiality) í samræmi við ESRS staðalinn. Á þann hátt er verið að undirbúa að sjálfbærniupplýsingagjöf félagsins sé í samræmi við ESRS staðalinn. Langbrók ráðgjöf sá um framkvæmd tvöföldrar mikilvægisgreiningari í samráði við sjálfbærnistýrihóp félagsins. Áhersla er lögð á að greina og meta áhættu og tækifæri hvers mikilvægisþáttar auk fjárhagslegra, umhverfislegra og samfélagslegra áhrifa. Enn fremur voru hagaðilar greindir með tilliti til mikilvægis og þeirra viðhorfa til sjálfbærniþátta Sýnar. Sjónum var beint að því að greina þýðingarmestu sjálfbærniþættina og áhrif þeirra á rekstur félagsins, umhverfi og samfélag. Þátttakendur lögðu mat á vægi sjálfbærniþátta starfseminnar og virðiskeðju, sjá hér á neðangreindri mynd (hlekkur á kafla um Mikilvægisgreiningu).

Stjórn og stjórnendur Sýnar eru meðvituð um að sjálfbærniþættir hafi áhrif á rekstur og virðiskeðju félagsins og er hafin innleiðing á verklagsreglum til að draga úr sjálfbærniáhættu sem tengist starfseminni, vörum og þjónustu. Til viðmiðunar eru niðurstöður mikilvægisgreiningar síðustu tveggja ára, alþjóðamælikvarðar auk niðurstöðu greiningar matsfélagsins Reitunar á árinu 2023. Niðurstaðan var sú að Sýn hf. fékk 73 punkta í UFS mati Reitunar sem er hækkun um 3 punkta á milli ára og er stöðugt með B2 í einkunn. Þetta mat styður kortlagningu á tækifærum og áskorunum og gefur fjárfestum aukið gegnsæi hvað varðar frammistöðu félagsins í sjálfbærni.

Við notum vefkökur til að bæta upplifun þína á síðunni. Með því að halda áfram að vafra um síðuna samþykkir þú skilmála okkar um notkun á vefkökum, að öðrum kosti getur þú kynnt þér hvernig má stýra notkun þeirra.