Árið 2023

Sjálfbærnistefna Sýnar

Sjálfbærnistefna Sýnar hf. rammar inn helstu áherslur félagsins í sjálfbærni og er innleidd í alla starfsemina. Lögð er rík áhersla á ábyrgan rekstur, góða stjórnarhætti, umhverfis- og félagsþætti í starfseminni. Kjarninn í stefnunni felst í þeirri samfélagsábyrgð að reka fjarskipta- og fjölmiðlafyrirtæki á Íslandi. Sýn hyggst takast á við umbreytingar og áhættur í samfélaginu og virðiskeðju sinni með fyrirbyggjandi hætti þar sem horft er til þess að auka sjálfbærni, vernda orðspor, efla seiglu og verðmæti félagsins með hagsmuni haghafa Sýnar í öndvegi.

Sjálfbærnistefnan tekur tillit til sjálfbærniáhættu í starfsemi og virðiskeðju félagsins. Byggt á tvöfaldri mikilvægisgreiningu er lagt mat á helstu sjálfbærniáhættur og tækifæri innan félagsins og í virðiskeðju þess.

Markmið

Markmiðið er að stefnan endurspegli megin sjálfbærniáherslur Sýnar og áhrif starfseminnar á umhverfi og samfélag og að þau séu mæld í samræmi við gildandi lög og leiðbeinandi viðmið.

Áhersla er lögð á að samþætta sjálfbæra starfshætti í starfsemina og draga úr áhættu tengdri sjálfbærni. Sjálfbærniáhættur eru innleiddar í almennt áhættumat félagsins.

Mikilvægur þáttur í sjálfbærniáherslum Sýnar er að miðla upplýsingum um veigamikla þætti í starfseminni með tilliti til sjálfbærni á sviði efnahags-, umhverfis-, samfélags- og stjórnarhátta.

Ábyrgðaraðilar

Stjórn, forstjóri og framkvæmdastjórn bera ábyrgð á innleiðingu á sjálfbærnistefnu innan félagsins. Stýrihópur í sjálfbærni hefur verið starfandi á annað ár hjá Sýn en forstjóri ber ábyrgð á vinnu hópsins. Hlutverk hans er að hafa umsjón með framkvæmd sjálfbærnistefnu, framkvæmd sjálfbærni áhættumats með tilliti til rekstraráhættu, þróa sjálfbærnimarkmið og fylgjast með framförum.

Umhverfisþættir

Sýn vinnur markvisst að því að draga úr neikvæðum umhverfisáhrifum af starfseminni. Sýn hefur frá árinu 2015 sett sér markmið um að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda og mæla árangurinn markvisst. Félagið styður við Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna númer 9, 12 og 13 sem snýr að nýsköpun, umhverfis- og loftslagsmálum. Megin umhverfisáhætta Sýnar er mögulegur raforkuskortur og aukin losun gróðurhúsalofttegunda. Áhættustýringin felst í því að vakta og lágmarka þá áhættu í starfseminni, innleiða hringrásarkerfi og orkusparandi aðgerðir og samgöngur, draga úr úrgangi og vatnsnotkun með það að markmiði að draga úr losun.

Félagsþættir

Sýn er umhugað um andlega og félagslega vellíðan starfsfólks. Félagið fylgir eftir jafnréttis- og mannréttindastefnu þar sem megináherslan er að byggja upp heilbrigt vinnuumhverfi þar sem hlúð er að vellíðan starfsfólks, mannréttindum, fjölbreytileika og inngildingu. Hafin er kortlagning á félagslegum áhættum varðandi birgja og samstarfsaðila. Félagið styður við Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna númer 5 sem snýr að jafnrétti kynjanna og númer 8, góð atvinna og hagvöxtur, sem styður við sjálfbæran hagvöxt og arðbær og mannsæmandi atvinnutækifæri fyrir öll.

Stjórnarhættir

Stjórn og stjórnendur vinna eftir siðareglum félagsins og bera ábyrgð á áhættu sem tengist stjórnarháttum, siðferði, spillingu og hlítni við lög og reglur. Sýn fylgir viðurkenndum leiðbeiningum um stjórnarhætti fyrirtækja, með það að markmiði að styrkja innviði Sýnar hf. og auka gagnsæi.

Sjálfbærniáherslur Sýnar

Viðmið og leiðbeiningar

• Evróputilskipun (CSRD) sem snýr að sjálfbærniupplýsingagjöf stórra og/eða skráðra fyrirtækja og ESRS (European Sustainability Reporting Standard) sjálfbærnistaðall. CSRD tilskipunin kemur í stað núverandi krafna í lögum um ársreikninga um ófjárhagslega upplýsingagjöf (3/2006 66. gr. d).

• Global Reporting Initiative (GRI) sjálfbærnistaðallinn sem er samræmanlegur sjálfbærnistaðli Evrópusambandsins (ESRS).

• Tvöföld mikilvægisgreining (e. Double Materiality) ESRS staðals Evrópusambandsins.

• Leiðbeiningar Viðskiptaráðs, Nasdaq OMX Iceland og Samtaka atvinnulífsins um stjórnarhætti fyrirtækja og leiðbeiningar Nasdaq OMX Iceland um samfélagsábyrgð.

• Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna.

Við notum vefkökur til að bæta upplifun þína á síðunni. Með því að halda áfram að vafra um síðuna samþykkir þú skilmála okkar um notkun á vefkökum, að öðrum kosti getur þú kynnt þér hvernig má stýra notkun þeirra.