Árið 2023

Ár stórra áfanga í krefjandi umhverfi

Árið 2023 var viðburðarríkt hjá Sýn. Félagið lauk stórum áföngum á borð við sölu á stofnnetinu til Ljósleiðarans og kaupunum á Já. Við náðum einnig mikilvægum áföngum í rekstri, s.s. bættum samningum við birgja í sjónvarpi og svo mætti áfram telja.

Í upphafi nýs árs kom svo nýr forstjóri til starfa og eru þess strax farin að sjást merki. Við bindum miklar vonir við Herdísi Dröfn Fjeldsted sem er reyndur stjórnandi sem hefur náð árangri alls staðar sem hún hefur komið.

Velkomin Herdís.

Agi nauðsynlegur í krefjandi rekstrarumhverfi

Ekki þarf að fjölyrða um þær áskoranir sem blasa við í fyrirtækjarekstri í dag. Mikill þrýstingur er á framlegð fyrirtækja í umhverfi launahækkana, verðbólgu og hárra vaxta. Á slíkum tímum er nauðsynlegt að rýna í hverja krónu. Ætla má að með því að einfalda reksturinn, lækka skuldir, skerpa skil milli rekstrareininga og létta yfirbyggingu getum við náð umtalsverðum árangri og búið til léttara og sveigjanlegra félag.

Sú vegferð er þegar hafin undir forystu okkar skelegga nýráðna forstjóra. Verkefnið er auðvitað krefjandi en gleymum því ekki að margir þættir eru okkur líka hagfelldir. Til að mynda sjáum við nú jákvæða þróun í ljósleiðaratengingum til heimila eftir nokkurra ára varnarbaráttu.

Sem endranær er verkefnið þó auðvitað margþætt. Nýta þarf hið jákvæða til að bæta reksturinn, og reyna eftir fremsta megni að draga úr áhrifum þess neikvæða.

Síbreytilegur markaður

Sýn starfar á mörkuðum sem eru á sífelldri hreyfingu enda tækniþróun ör. Hver veit hvernig við munum neyta sjónvarpsefnis eftir áratug? Íslensk fyrirtæki hafa gert vel í að fylgja eftir nýjust stefnum og straumum, enda Ísland með nettengdari þjóðum og mikil og kvik eftirspurn eftir því nýjasta og mest spennandi hverju sinni. Nauðsynlegt er að lagaumhverfi og eftirlitsaðilar taki mið af þessu.

Við sjáum miklar breytingar á alþjóðamörkuðum. Nýlega gaf framkvæmdastjórn Evrópusambandsins það út að auðvelda ætti fjarskiptafélögum að sameinast eða vinna í sameiningu að uppbyggingu innviða. Þá ætti að skikka tæknirisana – Google, Meta, Netflix, Amazon o.fl – sem nýta netið í miklu magni, til að bera hlut í kostnaði við uppbyggingu fjarskiptainnviða. Við sjáum svo sömu þróun í Bretlandi þar sem Vodafone þar í landi og Three hafa tilkynnt um fyrirhugaða sameiningu félaganna.

Með þessu er auðvitað verið að viðurkenna að aukin samlegð, kostnaðarhagræði og skynsamleg skipting á kostnaði við uppbyggingu þjóðhagslega mikilvægra innviða skili sér að endingu í bættum kjörum til neytenda. Athyglisvert verður að fylgjast með framhaldinu, en ljóst er að mikil verðmæti fara til spillis þegar verið er að byggja upp tvöfalda innviði í örríki eins og Íslandi.

Hvað sjónvarpsmarkaðinn varðar eru breytingarnar jafnvel enn hraðari. Undið hefur verið ofan af stórum samrunum fjarskipta- og sjónvarpsfyrirtækja sem voru í tísku fyrir nokkrum árum. AT&T og Warner hafa verið aðskilin. Gamalgrónu sjónvarpsfyrirtækin Warner, Paramount og Discovery ræða nú kosti og galla sameiningar.

Ísland er heldur ekki eyland þegar kemur að framboði á sjónvarpsefni. Keppinautar Stöðvar 2 eru ekki bara RÚV og Síminn, heldur þessir alþjóðlegu risar sem hér voru nefndir að ofan. Samkeppnisumhverfið er því nægjanlega krefjandi svo ekki sé minnst á okkar séríslensku samkeppnishindrun – Ríkisútvarpið – sem sogar til sín allt í senn fjármagn hins opinbera, starfsfólk frá keppinautum, afþreyingarefni og takmarkaðar auglýsingatekjur. Teikn eru nú á lofti um að aðgerðir séu í farvatninu gagnvart RÚV. Sporin hræða hins vegar í þeim efnum. Ekki hafa alltaf farið saman orð og efndir í málefnum RÚV.

Það skyldi því engan undra að í þessu umhverfi höfum við ákveðið að taka til skoðunar eignarhald okkar á tilteknum fjölmiðlum. Þá þróun sjáum við allt í kringum okkur. Miðað við alþjóðlegan tíðaranda megum við gera ráð fyrir að löggjafinn og eftirlitsaðilar séu á sama tíma að endurskoða hvernig þau skilgreina þá síkviku markaði sem við störfum á.

Alvöru maður

Stjórn Sýnar vill nýta tækifærið og þakka Páli Ásgrímssyni sérstaklega fyrir að hafa tímabundið tekið að sér starf forstjóra Sýnar síðustu mánuði ársins 2023. Páll – sem snúið hefur aftur til starfa sem framkvæmdastjóri lögfræðisviðs - hefur starfað lengi hjá Sýn og er öllum hnútum kunnugur. Það var því mikill styrkur að geta leitað til Páls þegar þess var þörf.

Að lokum vil ég þakka starfsfólki, stjórn og hluthöfum fyrir ánægjulegt samstarf á árinu.

Jón Skaftason, stjórnarformaður

Við notum vefkökur til að bæta upplifun þína á síðunni. Með því að halda áfram að vafra um síðuna samþykkir þú skilmála okkar um notkun á vefkökum, að öðrum kosti getur þú kynnt þér hvernig má stýra notkun þeirra.